Hin breska Sarah Thomas, 37 ára, lauk í morgun fyrst manna við að synda Ermarsundið fjórum sinnum í röð. Thomas lauk sundferðinni sem taldi um 209 kílómetra og hófst á sunnudagsmorgun á 54 klukkustundum.

Hún tileinkaði sundferðina „öllum þeim sem lifað hafa af“ en fyrir ári síðan lauk Sarah krabbameinsmeðferð sinni við brjóstakrabbameini.

„Ég trúi ekki að við höfum getað þetta, ég er bara dofin.“ Sagði Thomas við fréttamann BBC stuttu eftir að hún kom að landi í morgun.

„Ég fékk mér smá kampavín en það fór ekki vel niður, en ég er búin að fá mér nokkur M&M.“

Sterkir straumar þyngdu sundið töluvert


Upphaflega átti sundferðin að vera um 130 kílómetrar en vegna sterkra hafstrauma lengdist vegalengdin í raun um 60%.

Sarah synti Ermarsundið fyrst árið 2012 og aftur 2016 en hún hefur áður sagt samkvæmt frétt BBC: „Meðan ég var að synda 32 kílómetra sund fór ég að velta fyrir mér að ég gæti synt lengra og ég vildi sjá hversu mikið lengra.“

Sarah greindist með brjóstakrabbamein í síðla árs 2017, stuttu eftir að hún synti rúmlega 168 kílómetra í Champlain vatni á landamærum Bandaríkjanna og Kanada.

Sterkir hafstraumar lengdu vegalengdina sem Sarah synti um rúmlega 70 kílómetra.
Facebook/Big Ricks Swim Team
Thomas sagði sjóinn ekki eins kaldan og hún bjóst við en hún fann þó fyrir kuldanum.
Facebook/Big Ricks Swim Team

Það sem Thomas fannst erfiðast á sundinu var seltan í sjónum sem olli henni sársauka í hálsi, munni og á tungunni og einnig var hún stunginn af marglyttu í andlitið.

Sarah fékk næringu með reglulegu millibli frá aðstoðarteymi sínu sem ferjaði prótíndrykki með reipi til hennar.