Utanríkisráðuneytið synjaði umsókn um vopnaflutning til Sameinuðu arabísku furstadæmanna með íslenskum loftförum á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, sem birt var í þingskjölum Alþingis í dag.
Andrés Ingi sendi einnig inn fyrirspurn um hversu margar umsóknir um flutning hergagna með íslenskum loftförum til Sádi-Arabíu hafi verið afgreiddar frá því að ábyrgð á leyfisveitingum færðist til utanríkisráðuneytisins. Fram kemur í svari ráðuneytisins að engin slík umsókn hafi borist.
Þá spurði þingmaður Pírata einnig hvort ráðuneytið hefði „fullvissu fyrir því að hergögn sem falla undir framangreindar leyfisveitingar hafi ekki ratað í hendur stríðandi aðila í Jemen?“
Í svari ráðuneytisins kom fram að engin leyfi hafi verið veitt sem falla undir þær leyfisveitingar. Þá kemur einnig fram að ein og hálf klukkustund hafi farið í að taka svörin saman.