Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjórinn á Höfuðborgarsvæðinu mætti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun vegna Ásmundarsalsmálsins. Andrés Ingi Jónsson, Pírati í nefndinni segir að skýr svör hefðu komið frá lögreglustjóranum um samskipti hennar við dómsmálaráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í símtali á aðfangadag og svo í öðru símtali síðar en ráðherra hringdi í lögreglustjórann. „Við munum leggjast yfir það með sérfræðingum þingsins hvernig við getum skoðað hlut ráðherra í þessu. Þetta er óvenjulegt mál og hef ég beðið formann nefndarinnar að finna málinu farveg“, segir Andrés Ingi. Hann telji ekki þörf á að hlutur Höllu Bergþóru þurfi frekari útskýringa. „Mér sýnist hún hafa komið fram af fullum heildindum“, segir hann en annað sem komið hafi fram í morgun sé bundið trúnaði.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fjallaði í gær einnig um samskipti dómsmálaráðherra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vegna Ásmundarsalsmálsins svonefnda. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra kom fyrir nefndina í gær, einnig að ósk Andrésar Inga. „Mín tilfinning eftir þessa tvo fundi er að ráðherra var kominn út fyrir það sem telst eðlilegt og það þarf að skoða frekar“, segir hann en ítrekar að ekki sé um að ræða afstöðu allrar nefndarinnar og engin formlega ákvörðun hafi verið tekin á þeim vettvangi um framhaldið.