Tölfræði úr sýnatöku ferðamanna sem koma hingað til lands eftir 15. júní næstkomandi verður nýtt í rannsóknir til að kanna útbreiðslu kórónaveirunnar hjá ferðamönnum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá þessu á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag.

Far­þegum verður gert að borga 15 þúsund krónur fyrir sýna­töku kjósi þau að sleppa við 14 daga sótt­kví. Katrín segir að gjaldtakan byggi á raunkostnaði við skimunina; hvað það kosti að taka sýni, greina og flytja það. Sýnataka verður þó ókeypis fyrstu tvær vikurnar.

For­sætis­ráð­herrann hafði áður viðrað mögu­leikann á því að ríkið greiddi fyrir að­gerðina fyrst um sinn til að koma henni af stað en síðar færðist kostnaðurinn yfir á ferða­menn.

Fram á síðustu mínútu að ljúka undirbúningi

Allir farþegar verða einnig upplýstir um að sú tölfræði sem verður til við sýnatökuna kann að vera nýtt í rannsóknir. „Enda eru þetta mikilvæg gögn sem segja okkur hve raunveruleg útbreiðsla er hjá þeim sem eru að koma hingað til lands,“ segir Katrín en greindi einnig frá því að öllum sýnum verði eytt að lokinni töku.

Í dag er vika í að landið opni á ný og forsætisráðherra segir undirbúning vera að íslenskum hætti. „Þannig við verðum væntanlega fram á síðustu mínútu að ljúka undirbúningi fyrir skimunina.“