Sýnatökur vegna Covid-19 flytjast í Mjódd frá og með næstu mánaðarmótum. Frá því er greint á vef landlæknisembættisins en enn greinast á hverjum degi á milli 50 og 100 með Covid-19.

Í tilkynningu frá Heilsugæslunni kemur fram að sýnatakan verður áfram opin virka daga milli 8 og 12 og um helgar milli 9 og 12. Sýnatakan verður í anddyri höfuðstöðva Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Álfabakka 16, ekki í Heilsugæslustöðinni í Mjódd. Eingöngu verður boðið upp á PCR-sýnatökur en hægt er að bóka hraðpróf vegna ferðalaga hjá einkaaðilum.

Sýnatökurnar hafa hingað til verið á Suðurlandsbraut en heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins vinnur nú að því að flytja sína starfsemi þaðan.

Á vef embættis landlæknis kemur einnig fram að á landsbyggðinni sjá heilsugæslustöðvar um sýnatökur og bjóða eftir atvikum upp á PCR eða hraðpróf og er bent á vefi viðkomandi stofnana varðandi fyrirkomulag sýnatöku.

Þá kemur einnig fram að boðið verður áfram upp á sýnatökur fyrir ferðamenn á leið úr landi sem þurfa að framvísa vottorði um neikvætt próf á ferðalaginu.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnun Norðurlands bjóða upp á PCR próf en einkaaðilar bjóða upp á hraðpróf. Vísast á viðkomandi stofnanir og aðila varðandi fyrirspurnir og fyrirkomulag þeirrar sýnatöku.

Fréttin hefur verið uppfærð þann 28.4.22 klukkan 13:11.