Það finnst sykur í merkilega mörgum matvörum. Sykur er oft talinn gera mat bragðbetri og höfðar betur til almennings. Því er oft mikill sykur í mat á veitingastöðum, skyndibita og jafnvel matvörum út úr búð. Sykur er einnig oft notaður til að framlengja hillulífi vara,“ segir Júlía Magnúsdóttir, heilsumarkþjálfi. Hún hefur kynnt sér sykur mikið í gegnum árin og skoðað leiðir til að skipta út sykri fyrir aðrar sætur, sem eru heilsusamlegri. „Það er þó margt hollt og gott úti í búð líka og ég mæli með að fólk kynni sér innihaldslýsingu á matvörum og velji betri kostinn út frá því. En þrátt fyrir að vara sé stimpluð „hollustu fæða“ og finnist í heilsuhillunni, getur oft leynst sykur í henni.“

Júlía borðar ekki sykur sjálf. Hún heldur úti síðunni lifdutilfulls.is og mun í janúar hefja tveggja vikna sykurlausa áskorun. Áskorun Júlíu hefur verið haldin 1-2 sinnum á ári síðustu sex ár og vakið mikla lukku hjá þátttakendum. Júlía deilir uppskriftum með þátttakendum sem vinna gegn sykurlöngun, innkaupalista fyrir vikuna og ráðum sem létta lífið og halda þátttakendum við efnið. Hægt er að skrá sig ókeypis inni á heimasíðunni.

„Ég breytti um lífsstíl í kringum tvítugt þegar ég áttaði mig á því að ég var komin með fleiri heilsukvilla en ég gat talið,“ segir Júlía Magnúsdóttir, heilsumarkþjálfi. „Frá barnæsku hafði ég þjáðst af iðruólgu (IBS) sem lýsir sér í meltingaróþægindum og krömpum sem oft á tíðum endaði með því að ég lá veik heima. Síðar greindist ég með latan skjaldkirtil, PSOS og var farin að finna til í liðum og upplifa mikið orkuleysi. Ég tengdi þetta að mörgu leyti við sykurneyslu. Mér fannst þetta langt í frá því að vera eðlileg glíma fyrir unga stúlku eins og mig svo ég ákvað að ég skyldi prófa að breyta mataræðinu. Í dag er ég laus við alla fyrrnefndu kvilla og fann á sama tíma nýja ástríðu í lífinu, matargerðina, og að fá að hjálpa öðrum að líða betur.“

Júlía telur upp FIMM staðgengla sykurs:

1. Kókospálmanektar 

Ég er mjög hrifin af kókospálma­nektarnum en hann er unninn úr blómum kókospálmans. Kókospálmanektarinn er síróp og því ekki sama og kókossykurinn. Nektarinn inniheldur lítið magn af frúktósa. Frúktósi finnst í sykri og fleiri sætugjöfum og of mikið magn hefur slæm áhrif á heilsuna. Skiptið út 1 bolla af sykri fyrir ¾ bolla af kókospálmanektar. Ég nota kókospálmanektarinn mikið í drykki eða hrákökur. 

2. Stevía 

Sumum þykir vont eftirbragð koma af stevíu og því nota ég yfirleitt kókospálmanektar á móti stevíu fyrir sætt og gott bragð. Ef þú vilt nota stevíu eingöngu er talað um að skipta út 1 bolla af sykri fyrir 1 tsk. af stevíudropum eða -dufti. Hafið þó í huga að þið gætuð þurft að hagræða uppskrift og bæta við örlitlu af olíu eða vökva svo sama áferð fáist í bakstri.  

3. Kókospálmasykur 

Kókospálmasykur er auðveldasti kosturinn þegar kemur að því að skipta út hvítum sykri í bakstri. Skiptið þá út hvítum sykri fyrir sama magn kókospálmasykurs. Að skipta út hvítum strásykri fyrir kókospálmasykur tryggir oft sömu áferð í bakstri. 

4. Hlynsíróp 

Hlynsíróp gefur milt bragð og fínt í baksturinn og má skipta út 1 bolla af sykri fyrir 1 bolla af hlynsírópi. Ég nota hlynsírópið gjarnan í smákökur. 

5. Eplamauk 

Eplamauk er frábær leið til að bæta við sætleika í uppskrift án þess að nota hvítan sykur og það finnst ekkert eplabragð. Ef uppskrift kallar eftir bolla af sykri, skiptið honum út fyrir bolla af eplamauki. Þar sem eplamauk eykur vökvahlutfallið í gætir þú þurft að minnka annan vökva (vatn, mjólk...) um ¼ bolla á móti. Ef uppskrift inniheldur ekki vökva þarf ekki að spá í því.

Er sykur í vörunni? 

Oft leynist sykur í matvælum og hér koma nokkur algeng matvæli sem innihalda iðulega mikinn sykur. Leitist við að velja hreinni afurðir án viðbætts sykurs eða að gera til dæmis sósur frá grunni. 

- Tómatvörur og pastasósur 

- Tilbúnar sósur 

- Dósamatur 

- Múslí 

- Mjólkurvörur

Meira um efnið í Tilverunni, nýjum fréttahluta í fimmtudagsútgáfu Fréttablaðsins þar sem heilsu og lífsstíl verður gert hátt undir höfði.