Allt aðrar reglur virðast gilda hér á landi um kjöt af riðuveiku sauðfé, sem öllu er fargað, en eldislaxi, sem sýkst hefur í kvíum af veirusjúkdómum, er slátrað til manneldis.

Nýverið kom upp veirusýking í einu eldissvæði í Reyðarfirði, sem í fyrstu var talið að væri einangruð við þann fjörð, en svo kom í ljós að sambærileg sýking var líka komin upp í kvíum í Berufirði.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur þessum sýkta eldisfiski verið ekið í svokölluðum meltutönkum til frekari meðferðar á Djúpavogi og er afurðin seld að hluta til manneldis, að mestu leyti til útlanda en líka innanlands.

Fréttablaðið hefur undir höndum bréf þessa efnis frá sérgreinalækni dýralækna hjá Matvælastofnun. Þar segir: „Sláturfiskur til manneldis fer allur ferskur, slægður, ísaður og pakkaður beint á markað. Nánast allur lax úr Reyðarfirði fer á erlendan markað, aðallega Bandaríkin en einnig á Evrópumarkað (s.s. Frakkland, Pólland, Holland og Portúgal) og síðan verður eitthvert lítilræði eftir á heimamarkaði.“

Fisksjúkdómurinn sem komið hefur upp á Austfjörðum er svokölluð laxaflensa sem nefnd er blóðþorri. Segir í bréfi stofnunarinnar að til að gæta alls öryggis vegna sýkingarinnar á svæðinu „og koma í veg fyrir frekari smitdreifingu á svæðinu var ákveðið að slátra upp öllum öðrum laxi á sjókvíaeldissvæðinu“.

Sérgreinalæknir dýralækna hjá Matvælastofnun segir jafnframt í bréfi sínu að veiran sé skaðlaus mönnum og dreifist ekki með slægðum fiskafurðum og það gildi um aðrar fiskaveirur.