Karlmaður var sýknaður í Héraðsdómi Norðurlands eystra í vikunni vegna átaka sem áttu sér stað á veitinga- og skemmtistaðnum Gamla Bauk á Húsavík laugardaginn 18. maí árið 2019.

Maðurinn var ákærður fyrir líkamsárás gagnvart öðrum karlmanni. Hann átti að hafa veist að honum, slegið til hans, og ýtt honum í gólfið, sem varð til þess að brotaþoli hlaut slæm meiðsli. Ákærði viðurkenndi að til átaka hafi komið umrætt kvöld, en neitaði að hafa kýlt eða sparkað í brotaþola.

Dómurinn mat það svo að framburður brotaþola hefði verið trúverðugur, en ekki nægilega skýr til þess að taka allan vafa um sekt ákærða, auk þess sem ekkert vitni, fyrir utan sjálfan brotaþola, gat sagt til um hvernig hann féll í jörðina. Þess má þá geta að slökkt var öryggismyndavélum staðarins umrætt kvöld, og því ekki hægt að nota myndefni úr þeim sem sönnunargögn.

Enduðu í hrúgu á gólfinu

Brotaþoli segist hafa mætt á Gamla Bauk um miðnætti umrætt kvöld ásamt tengdafjölskyldu sinni. Hann segist hafa neytt bjórs í litlu magni. Flestir fjölskyldumeðlimirnir virðast hafa farið snemma heim um kvöldið fyrir utan brotaþola og systur kærustu hans, en hún er jafnframt frænka ákærða.

Þá virðist ákærði hafa komið á stjá, ónáðað manninn, og rifrildi milli þeirra hafist. Efni rifrildisins er ekki ljóst. Rifrildið breyttist síðan í frekari átök, og þeir virðast hafa endað báðir í gólfinu. Líkt og áður kom fram vildi brotaþoli meina að honum hafi verið ýtt í jörðina, en ákærði var ekki sammála því. Hann vildi meina að þeir hefðu fallið saman í jörðina.

Þá vildi brotaþoli meina að kunningjar og vinir ákærða hefðu tekið þátt í árásinni. Og í vitnisburði ákærða kom fram að eftir að þeir lentu í gólfinu hafi fleiri farið að fljúgast á, þá hafi einn vinur hans viðurkennt að hafa slegið brotaþola.

Dyravörður á Gamla Bauk bar vitni fyrir dómi. Hann sagðist hafa verið kallaður á vettvang til að leysa ágreininginn. Hann hafi séð nokkra menn liggjandi í hrúgu á gólfinu. Hann hafi skakkað leikinn og vísað ákærða og félaga hans út af staðnum, en kvaðst ekki hafa séð sjálf átökin.

Samkvæmt framburði brotaþola á ákærði að hafa viðurkennt brot sitt eftir árásina og fallist á að greiða honum fyrir leðurjakka sem rifnaði í átökunum. Í dómnum segir að það liggi fyrir að ákærði hafi bætt manninum jakkann upp. Hann sagði þó ástæðuna fyrir því hafa verið að hann hafi skammast sín fyrir að ónáða manninn, og því borgað honum.

Mætti á sama stað daginn eftir

Brotaþoli vildi meina að hann hafi hlotið alvarleg meiðsli vegna átakanna. Umrædd meiðsli voru slitin krossbönd og liðbönd í hné og liðþófi rifinn. Hann hafi farið í tvær aðgerðir vegna þess og verið óvinnufær í um það bil ár. Auk þess hafi hann misst vinnuna vegna meiðslanna vegna þess að vinnuveitandi hans hafi þurft að finna mann í hans stað.

Bæklunarskurðlæknir staðfesti vottorð mannsins fyrir dómi. Þó voru sett nokkur spurningarmerki við þessi meiðsli. Maðurinn sótti sér ekki læknishjálpar fyrr en fjórum dögum eftir atvikið, auk þess sem hann sótti Gamla Bauk aftur daginn eftir átökin. Hann sagðist þó hafa verið illa haldinn það kvöld, verið haltrandi, og einungis geta hitt fólk, en ekki drukkið.

Líkt og áður segir var hinn maðurinn sýknaður af ákærunni og þá mun ríkissjóður sjá um að greiða sakarkostnað.