Karlmaður hefur verið sýknaður af nauðgunarákæru en hann svaf hjá 13 ára stelpu með asperger heilkenni þegar hann var 18 ára gamall. Dómurinn var birtur í héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Helsta ágreiningsmálið varðar vitneskju karlmannsins um aldur barnsins en að sögn ákærða hélt hann því fram að stúlkan hefði verið 17 ára gömul þegar þau sváfu saman.

Þau hafi kynnst á Snapchat og aldur þeirra hafi aldrei komið upp í samtölum. Hann segir að hún hafi verið andlegan og líkamlegan þroska á við 17 ára gamla stúlku og hafi hann því ekki spurt hana nánar út í aldur. Hann hafi hins vegar ákveðið að slíta samskiptum við hana eftir að hann fann út um aldur hennar.

Stúlkan heldur því hins vegar fram að hann hafi vitað um aldur hennar og þau hafi meðal annars talað um að aldurinn væri aðeins tala.

Í dómnum kemur fram að ekki hafi verið hægt að staðfesta þetta þar sem stúlkan hafði eytt öllum rafrænum samskiptum þeirra úr símanum.

Stúlkan með áfallastreituröskun

Þegar stúlkan var kölluð til skýrslugjafar tók hún fram að ákærði hefði nauðgað sér. Hún hefði átt erfitt með að segja nei þar sem hún væri kvíðin og stressuð vegna þess að ákærði væri stærri en hún og eldri. Hún hefði óttast hvað ákærði myndi gera ef hún segði nei.

Í vottorði sálfræðings kemur fram að stúlkan hafi uppfyllt greiningarskilmerki áfallastreituröskunar í tengslum við meint kynferðisbrot. Viðtöl í Barnahúsi hafi hjálpað brotaþola en henni hafi greinilega ekki tekist að vinna alveg úr áfallinu.

Stúlkan hafi farið í meðferð á vegum Barnahúss þar sem kom meðal annars fram að hún hafi verið greind með ADHD, mótþróaþrjóskuröskun og kvíða. Hún hafi einnig verið greind með asperger-heilkenni. Þá hafi komið vel fram í áfallasögu brotaþola að hún hafi ekki virst hafa skilið hvað vakti fyrir ákærða.

Vitnisburðir passa ekki saman

Vitnisburður vinkonu stúlkunnar, sem var í sama húsi og atvikið átti sér stað, passar ekki við vitnisburð stúlkunnar. Vinkonan segir að stúlkan hefði ekki leynt því að hún vildi kynlíf með ákærða. Vinkonan hefði einhvern tíma opnað herbergið og séð hana ofan á ákærða. Stúlkan hafi virst ánægð eftir á og sagt vinkonu sinni frá því að hún hefði misst meydóminn. Stúlkan hafi breytt afstöðu sinni til ákærða eftir að hann hafi hætt með henni að sögn vinkonunnar.

Karlmaðurinn neitaði ávallt sök í málinu og segir að nokkru eftir að þau hafi stundað kynmök hafi hún sagt honum hvað hún væri gömul. Þá hefði hann hætt að tala við hana. Síðar hafi hann frétt af því að hún hefði kært hann. Hann hafi ítrekað beðið um samþykki hennar áður en þau hafi stundað kynmök og hún hafi ítrekað sagt já.

Ákærunni var vísað frá dómi og greiðist allur sakarkostnaður úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda mannsins upp á 950 þúsund krónur, þóknun áður skipaðs verjanda ákærða, um 343 þúsund krónur og þóknun réttargæslumanns stúlkunnar, 700 þúsund krónur.