Karlmaður var á dögunum sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur af ákæru er varðaði nauðgun. Umrætt atvik átti sér stað árið 2009, en manninum var gefið að sök að hafa stungið fingri inn í leggöng konu og skömmu síðar haft við hana samræði. Á meðan hafi konan ekki getað spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.

Á meðal gagna málsins eru Messenger-skilaboð á milli ákærða og brotaþola. Í þeim baðst maðurinn afsökunar á hegðun sinni, en samkvæmt dómnum sönnuðu þau ekki að um nauðgun hefði verið að ræða.

Vinir til margra ára

Maðurinn og konan höfðu verið vinir til margra ára og voru vinnufélagar þegar þetta meinta atvik átti sér stað. Þau höfðu verið að skemmta sér í miðborg Reykjavíkur ásamt vinnufélgögum og farið á nokkra staði um kvöldið.

Samkvæmt málflutningi konunnar hafði maðurinn boðið henni heim til sín í samkvæmi og hún talið að fleira fólk kæmi á staðinn. Þegar þangað var komið varð hún þreytt og lagði sig, en hún segist hafa vaknað við það að maðurinn væri búinn að afklæða hana og að hafa við hana samræði. Hún segist hafa brugðist harkalega við og gripið um háls hans en þá hafi hann gert sér upp meðvitundarleysi.

Í kjölfarið hafi hún farið burtu með leigubíl heim til kærasta síns. Fram kemur að hún hafi sagt honum og öðrum nákomnum að henni hafi verið nauðgað strax daginn eftir.

„Get aldrei byrjað að ýminda mer hvernig ég get beðist fyrirgefningar“

Líkt og áður segir lágu Messenger-skilaboð á milli þeirra tveggja fyrir þar sem maðurinn baðst afsökunar á hegðun sinni. Það þótti þó ekki sanna verknaðinn, en ekki þótti ljóst að hann væri að biðjast afsökunar á þeim brotum sem honum var gefið að sök. Sjálfur hélt hann því fram að hann hefði verið að biðjast afsökunar á því að vera að taka þátt í framhjáhaldi.

„[E]r mjög hræddur um að við séum miklu betri vinir en við heldum ... þú þarft ekki en ef þú vilt heyra í mer, geturu sent skilaboð hér ... sakna þín [A] mín og ég get aldrei byrjað að ýminda mer hvernig ég get beðist fyrirgefningar.“ var á meðal þess sem maðurinn sendi konunni nokkrum dögum eftir atvikið, og þá sagðist hann jafnframt skilja að hún myndi ekki vilja hitta hann aftur. Í dómnum er svar konunnar einnig birt sem og frekari samskipti þeirra.

„Alla tíð hef ég staðið við bakið á þér X og tekið við skítnum sem að aðrir hafa að segja um þig. Ég hef ALLTAF og þá er ég að tala um ALLTAF tekið upp hanskann fyrir þig í sambandi við allt kjaftæðið sem hefur verið sagt um þig. Ég áleit þig sem minn besta vin og aldrei hefði mig órað fyrir því að þú gætir gert manneskju svona hlut. Eina sem að mig langar að segja við þig er að ég vill aldrei tala við þig aftur fockings hálfvitinn þinn. Þú ert gjörsamlega búin að fara yfir öll þau strik sem er mögulega hægt að fara yfir, ég hef akkurat ekkert álit á þér og hvað vináttu okkur varðar er hún búin. [...] Ég trúi því ekki einu sinni að þú dirfist að halda það að við verðum vinir aftur, ertu virkilega það siðblindur?“ sagði konan í svari sínu til mannsins

Fleiri meintir þolendur stigið fram

Það var ekki fyrr en árið 2019 sem konan gaf skýrslu vegna málsins og ári síðar var maðurinn boðaður í skýrslutöku. Þar hélt hann því fram þau hefðu átt samræði umrætt kvöld og hún verið samþykk því, en skyndilega hafi hún beðið hann um að hætta og ýtt honum frá sér. Hann segist hafa stoppað strax.

Þá sagðist hann ekki muna eftir því að konan hafi verið ósátt, en segist sjálfur hafa fengið samviskubit, þar sem hann hafi haft frumkvæðið.

Framburður mannsins og konunnar voru metnir jafntrúverðugir. Í dómnum er tekið fram að það hafi ekki auðveldað rannsókn á málinu að langur tími sé liðinn frá því hvenær þetta meinta brot átti sér stað.

Konan greindi frá ástæðu þess að hún kærði manninn svona seint og nefndi sem dæmi breytta umræðu er varðar kynferðisbrot. Þá hafi aðrir þolendur stigið fram á svipuðum tíma vegna meintra brota mannsins.

Líkt og áður segir var maðurinn sýknaður af ákæru og þá var einkaréttarkröfu vísað frá dómi. Þá var ákvarðað að allur málskostnaður yrði greiddur úr ríkissjóði.