Ungur karl­maður var í Lands­rétti í vikunni sýknaður af á­kæru um að hafa brotið gegn 13 ára stúlku en hann var sakaður um að hafa neytt hana til að hafa við sig munn­mök í tjaldi og stungið fingri í leg­göng hennar. Maðurinn var á þeim tíma sem brotið átti sér stað að­eins 16 ára gamall sjálfur og því voru þau bæði börn. Maðurinn var einnig á­kærður fyrir brot gegn barna­verndar- og á­fengis­lögum því hann gaf stelpunni á­fengi í tjaldinu.
Í málinu var tekist á um að hann hafi vitað hversu ung stúlkan var og stað­hæfði hann að hann hefði ekki með á­setningi haft kyn­ferðis­mök við barn. Hann fékk að­eins að vita um aldur hennar þegar kallað var inn í tjaldið og þá segist hann hafa hætt því sem þau voru að gera. Fyrir það taldi hann hana einu ári yngri, en ekki þremur.

Það var þó ekki talið að hægt væri að gera eins ríkar kröfur til hans og til eldri manna, vegna aldurs hans, um að gæta að aldri hennar og því var það ekki metið refsi­vert.

Stúlkan sagði fyrst frá of­beldi hjá fé­lags­ráð­gjafa árið 2017 og kærði það í kjöl­farið. Í greinar­gerð er vísað til ýmissa gagna svo sem vitnis­burðar frá sál­fræðingi og sér­fræðingi í Barna­húsi, auk vitna.

Drengurinn og stúlkan eru ekki sam­mála um það sem gerðist í tjaldinu. Stúlkan segir að hann hafi brotið gegn sér og að hún hafi frosið og hann ekki hlustað á neitun hennar. Drengurinn hins vegar segir að allt hafi gerst með vilja beggja.

Hægt er að lesa dóminn hér í heild sinni.