Ungur karlmaður var í lok júlí sýknaður af ákæru um nauðgun í gegn stúlku í febrúar 2019 á þáverandi heimili sínu.

Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok júlí en var birtur í gær.

Manninum var gert að sök að hafa haft samræði við stúlkuna án hennar samþykkis og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Stúlkan hlaut sogbletti á kinn og hálsi og bitfar á vinstra læri.

Fjórar milljónir í miskabætur

Stefnandi krafðist fjögurra milljóna króna í miskabætur auk vaxta en verjandi krafðist þess að málinu yrði vísað frá dómi en til vara að hann yrði sýknaður.

Maðurinn og stúlkan þekktust fyrir meint brot en stúlkan kvaðst ekki muna fyllilega hvað hefði gerst umrætt kvöld en að henni hafi liðið skringilega.

Stúlkan greindi frá því á neyðarmóttöku að hún hafi farið með vini sínum og vini hans á heimili hans. Þau hafi drukkið áfengi og farið í heitan pott en svo hafi hún ekki munað neitt þar til hún vaknaði í ókunnugu húsi um hádegi þá aðeins klædd í peysu en buxur og nærbuxur hafi legið á gólfinu.

Þá segir jafnframt í skýrslu neyðarmóttöku að stúlkan hafi kvartað undan verkjum og sagst vera með óþægindi í leggöngum. Hún hafi verið fjarræn og lítið munað en sagt skýrt frá.

Tekið var strok fyrir DNA-rannsókn sem voru send til Svíþjóðar sem leiddu í ljós að DNA ákærða fannst í sýnum úr kynfærum og endaþarmi brotaþola.

DNA sýni staðfest

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu tvisvar árið 2019 og í báðum tilvikum kvaðst hann ekki hafa hitt brotaþola umrætt kvöld. Hann sagðist þó þekkja brotaþola, þau væru vinir og hefðu sofið saman áður. Hann gat ekki gefið skýringar á niðurstöðum DNA-rannsóknarinnar.

Framburður ákærða breyttist svo fyrir dómi, hann og stúlkan hefðu haft samþykkt samræði. Hann sagði stúlkuna hafa átt frumkvæði að kynlífinu, veitt honum munnmök og síðan hefðu þau haft samræði í gegnum leggöng. Móðir og bróðir hans hefðu verið heima og þegar hann vaknaði hafi stúlkan staðið með símann inn. Hann segir allt hafa virst eðlilegt og að stúlkan hafi knúsað hann bless.

„Hann hefði svo sofnað aftur. Þegar hann hefði heyrt af kærunni hefði hann orðið hissa og sár og reynt að ræða við brotaþola á Snapchat. Hún hefði sagt honum að hún hefði ekki viljað kæra hann.“

Ákærði sagði ástæðu misvísandi framburðs vera hræðslu við skýrslutöku lögreglu og að honum hafi liðið óþægilega. Hann væri að greina rétt frá atvikum núna en hefði ekki áttað sig á mikilvægi þess að segja satt hjá lögreglu.

Kvaðst lítið muna

Stúlkan kvaðst lítið muna fyrir dómi. Hún mundi ekki hvort þau hefðu sofið saman en hún taldi að hún hefði áður komið heim til hans. Hún sagðist vera búin að loka á þessa hluti. Þá greindi hún frá því að eftir atvikið hefði hún átt venjuleg samskipti við ákærða sem hefðu ekki snúist um neitt sérstakt.

Hún væri í skóla með honum en hefði ekki pælt neitt sérstaklega í því. „Það hefði ekki verið hennar ákvörðun að kæra heldur hefði móðir hennar gert það.“

Spurð út í lögregluskýrslu sína kvaðst stúlkan mun eftir að hafa gefið hana og að hún teldi sig hafa sagt satt.

Neitaði sök í málinu

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að framburður stúlkunnar hafi þótt óljós. „Hún er trúverðug svo langt sem það nær.“ Hún mat atvik ekki vel og mundi enn minna við aðalmeðferð málsins en hjá lögreglu. Hún mundi ekki eftir neinu samræði og mundi heldur ekki hvort hún hefði áður átt í kynferðislegum samskiptum við ákærða.“ Þá liggi ekki ljóst fyrir af hverju hún muni atvik svo illa sem raun beri vitni.

Maðurinn breytti einnig sínum framburði en sagði það vera vegna þess að hann hefði orðið hræddur hjá lögreglu og þótt brotið á sér.

Var það mat dómara að ekki væri hægt að sanna að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefið að sök í ákæru og var hann sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.