Rúna Hauks­dóttir Hvann­berg, for­stjóri Lyfja­stofnunar, segir að það sé á­hyggju­efni að það sé skortur á sýkla­lyfjunum Ari­to­mycin og Zitromax hér­lendis um þessar mundir. Lyfja­stofnun fylgist náið með stöðunni og hefur gripið til aðgerða.

„Stærsti hlutinn af vinnunni okkar fer í að koma í veg fyrir lyfja­skort. Það er tölu­vert mikil vinna sem við vinnum með heild­sölum í landinu. En þetta er alltaf á­hyggju­efni og það er lyfja­skortur í Evrópu,“ segir Rúna.

Meðal þeirra aðgerða sem Lyfjastofnun hefur gripið til er að veita heimild fyrir notkun undanþágulyfja. Rúna segir að með því sé hægt að mæta skortinum en fólk getur þannig notað lyf­seðlana sem það á og fengið undan­þágu­lyf.

Að­spurð segir hún einnig skort á svefn­lyfjum á Ís­landi en unnið er eða því að fá fleiri svefn­lyf send með flugi.

„Það er skortur á Stil­noct, báðum pakkninga­stærðum, það er tölu­vert mikil svefn­lyfja­notkun á Ís­landi ég veit ekki hvort notkun hafi farið um­fram það sem var gert ráð fyrir í birgða­haldi. En það er verið að reyna ná þessum svefn­lyfjum inn með flugi en eins og allir vita hafa sam­göngur yfir há­tíðirnar verið eins og þær hafa verið,“ segir Rúna.

„Þetta er auð­vitað baga­legt fyrir þá sem eru að leysa út en þetta eru lyf sem á nota eftir þörfum og það er verið að horfa á að ná þessu inn með flug­sam­göngum. Þó þetta sé komið í skort í heild sinni getur þetta verið til í ein­hverjum apó­tekum en það er verið að huga að flug­flutningum,“ segir Rúna.

Lyfja­stofnun og Toll­gæslan tóku þátt í um­fangs­mikilli að­gerð Europol, Operation Shield III, þann 19. desember í fyrra. Það kemur fram í til­kynningu frá Lyfja­stofnun í dag en hér­lendis var meðal annars lagt hald á stera­tengd efni, stinningar­lyf, og sterk verkja­lyf eins og oxí­kontín. Greint var frá aðgerðinni í dag.

Spurð um þessa aðgerð segir Rúna Tollgæsluna bera ábyrgð á henni en Lyfjastofnun sé kölluð til sem sérfræðingar.

„Við erum þarna sér­fræðingar til að meta magnið um­fram það sem er leyfi­legt að koma til landsins. Við ráð­leggjum þeim við að­gerðirnar þar sem við höfum lyfja­fræði­kunn­áttuna og vitum hvað má koma til landsins og í hvaða magni," segir Rúna.

Í til­kynningu Lyfja­stofnunar segir að Europol hafi stýrt al­þjóð­legu að­gerðinni Operation Shield III en hún beindist gegn ó­lög­legum lyfjum og stera­tengdum efnum.

Hald var lagt á lyf að and­virði rúm­lega 40 milljóna evra á heims­vísu, fimm­tíu og níu glæpa­hópar voru leystir upp, og tíu ó­lög­legum rann­sóknar­stofum lokað. Hér­lendis var meðal annars lagt hald á stera­tengd efni, stinningar­lyf, og sterk verkja­lyf eins og oxí­kontín.