Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans er komin að þolmörkum eftir mikla fjölgun sýna að undanförnu. Bæði hefur verið mikil aukning í landamæra- og innanlandssýnum en fjölgun þeirra síðarnefndu hefur reynst deildinni þyngri baggi að sögn yfirlæknis.

Að óbreyttu er ekkert svigrúm til að hefja á ný skimun farþega frá löndum þar sem útbreiðsla COVID-19 er komin aftur á skrið.

Starfsmenn unnið lengra fram á nótt

Mikið álag hefur verið á deildinni síðustu sex daga þar sem sýnafjöldi í landamæraskimun hefur þrisvar farið vel yfir 2.000 sýna skimunarmörkin á sólarhring.

„Það þýðir að fólk hefur þurft að vinna lengra fram á nóttina eða þegar að við höfum ekki komist yfir öll sýnin að einhverjir hafa þurft að bíða eftir niðurstöðu fram til næsta dags,“ segir Karl Gústaf Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, í samtali við Fréttablaðið.

„Þetta hefur gengið en við erum á þolmörkum svo ef það verður einhver aukning umfram það sem hefur verið þá fara að verða seinkanir á svörum og álagið kannski orðið of mikið á starfsmennina.“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi í gær að stjórnvöld skoði nú hvernig hægt sé að draga úr fjölda ferðamanna hingað til lands vegna takmarkana á skimunargetu. Svipuð umræða kom upp um miðjan júlí rétt áður en ákveðið var að hætta skimum farþega frá Þýskalandi, Danmörku, Noregi og Finnlandi.

Breytingar og endurbætur voru gerðar á húsnæði sýkla- og veirufræðideildarinnar þegar hún tók við greiningu allra landamærasýna.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Ekki svigrúm til að skima ferðamenn frá Þýskalandi og Danmörku

Nú hefur sóttvarnalæknir velt því upp hvort ástæða sé til að byrja að skima farþega frá Danmörku og Þýskalandi að nýju vegna fjölgunar COVID-19 tilfella í þeim löndum. 37,6% erlendra farþega sem fóru um Keflavíkurflugvöll í júní voru með þýskt eða danskt ríkisfang, samkvæmt talningu Ferðamálastofu.

„Eins og staðan er núna þá myndi það ganga mjög illa upp,“ segir Karl. „Þess vegna held ég að sóttvarnalæknir sé farinn að hafa áhyggjur af þessu og verið sé að skoða hvort hægt sé að takmarka fjölda ferðamanna.“

Það sem einna helst takmarkar afkastagetu sýkla- og veirufræðideildarinnar er tækjakostur hennar. Karl á von á því að nýtt greiningartæki bætist við í lok ágúst en óljóst er hvaða áhrif sú innleiðing eigi eftir að hafa á afkastagetuna.

Mesta breytingin mun eiga sér stað í lok nóvember eða byrjun desember þegar gert er ráð fyrir að annað og mun stærra greiningartæki verði komið í gagnið. Mun það ráða við allt að 4.000 sýni á sólarhring og einfalda umsýslu starfsfólks til muna.

Umsýsla í kringum greiningu sýnanna mun minnka með tilkomu nýs greiningartækis í lok árs.
Ljósmynd/Þorkell Þorkelson

Vill ekki greina fleiri sýni í einu

Frá því að Landspítalinn tók alfarið við greiningu sýna úr landamæraskimun um miðjan júlí hafa fimm sýni gerið greind í einu til að auka skimunargetu. Ef samsetta sýnið reynist jákvætt fyrir COVID-19 þarf að stíga skref til baka og greina hvert og eitt þeirra til að finna hvert af þessum fimm var jákvætt.

Dæmi eru um erlendis að fleiri sýni séu greind saman í einu. Karl segir ekki hafa komið til greina að grípa til þess ráðs.

„Það myndi ekki auka afkastagetuna að fjölga í sameiningu. Ef það eru tíu saman þá mun endurtekningasýnafjöldi tvöfaldast og þá er bara verið að tefja á vinnsluminni, fyrir utan að það yrði ekki nægilega næmt.“

Meiri vinna við sjúklingasýnin

Að sögn Karls hefur aukningin verið meiri í sjúklingasýnum en landamærasýnum að undanförnu. Sú þróun á sér stað á sama tíma og sýnataka á heilsugæslu hefur fjölgað.

„Sjúklingasýnin hafa meiri áhrif. Það er meiri vinna við þau, bæði skráning og svörun og líka það að við getum ekki sameinað fimm sýni saman líkt og við gerum við landamæraskimun.“

Ein helsta ástæðan fyrir því er að hærra hlutfall sýna frá heilsugæslu eru jákvæð. Kallar það á mun fleiri endurtekningarpróf ef COVID-19 finnst í sameinuðu sýni og meiri vinnu fyrir starfsmenn deildarinnar.

„Fólk er yfirleitt að leita til heilsugæslunnar því það hefur einhver einkenni en í landamæraskimun telur fólk sig yfirleitt vera fullfrískt.“