Þrátt fyrir að SWIFT-kerfið sé ekki eiginlegt greiðslukerfi, heldur skilaboðakerfi milli fjármálafyrirtækja um öruggt net, gegnir það lykilhlutverki í fljótum og öruggum bankamillifærslum milli landa. Á þetta ekki síst við um millifærslu hárra fjárhæða.

Þetta þýðir í hnotskurn að alvarleg röskun verður á öllum fjármagnsflutningum milli Rússlands og annarra landa. Rússar eru einhverjir mestu framleiðendur og útflytjendur jarðgass og jarðefnaeldsneytis í heiminum.

Útilokun frá SWIFT hefur í för með sér að kaupendur þessa eldsneytis munu eiga í erfiðleikum með að koma greiðslum til Rússlands.

Einnig eru Rússar stórir útflytjendur korns og hveitis, auk þess sem þeir flytja út mikið magn timburs, kola og málma. Án SWIFT raskast greiðsluflæði vegna þessa útflutnings með alvarlegum afleiðingum fyrir rússneska hagkerfið.

Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja, segir áhrif SWIFT-útilokunar og annarra þvingunaraðgerða á Rússland vera keimlík því sem við Íslendingar reyndum á eigin skinni haustið 2008 eftir að Bretar settu Ísland á lista yfir hryðjuverkaöfl og öll greiðslumiðlun til og frá landinu raskaðist alvarlega.

Ísland var ekki útilokað frá SWIFT- kerfinu 2008 en hryðjuverkastimpillinn varð til þess að fjölmargir erlendir bankar veigruðu sér við að senda fjármuni til íslenskra banka og taka við peningasendingum frá þeim.

Hætta skapaðist á skorti á lyfjum og öðrum nauðsynjavörum hér á landi eftir að greiðslumiðlun til og frá landinu truflaðist vegna hryðjuverkastimpils ríkisstjórnar Gordons Brown í Bretlandi. Hætt er við að ef SWIFT-kerfið sjálft hefði lokast hefði vöruskortur orðið að veruleika.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands er SWIFT-útilokunin ekki komin til framkvæmda gagnvart Rússlandi því að einhvern tíma tekur fyrir SWIFT að útfæra hana. Veruleikinn sem blasir við Rússum þegar að því kemur er allt annað en bjartur.

Viðskiptaþvinganir af þessu tagi koma illa við Rússland en því fer fjarri að þær séu sársaukalausar fyrir önnur ríki. Tvær hliðar eru á þessum peningi.

Fyrirtæki sem flytja út vörur til Rússlands standa frammi fyrir því að fá ekki greitt fyrir vörur sínar. Þetta er ein ástæða þess að vestræn ríki veigruðu sér við að henda Rússum út úr SWIFT. Viðskiptahagsmunir vestrænna fyrirtækja og fjármálastofnana eru mjög miklir.

Vestrænir bankar eiga miklar fjárhæðir útistandandi í Rússlandi. Á þetta ekki síst við þýska banka, enda voru þýsk stjórnvöld einna tregust í taumi með að grípa til SWIFT-útilokunar.

Mögulega þurfa vestræn stjórnvöld að grípa til einhverra mótvægisaðgerða til að hlaupa undir bagga með þeim fyrirtækjum sem mest verða fyrir barðinu á þvingunaraðgerðum á borð við SWIFT-útilokun Rússa.

Til lengri tíma er líklegt að SWIFT-útilokun skerði verulega lífskjör í Rússlandi. Nokkuð öruggt er að rússnesk fyrirtæki og fjármálastofnanir finna nýjar leiðir til að koma peningagreiðslum til og frá Rússlandi.

Notkun rafmynta er ein leið til greiðslumiðlunar. Einnig geta Rússar nýtt sér kínversku greiðslumiðlunina CIPS, en ólíklegt er að sú leið verði fær í viðskiptum við Vesturlönd. Nokkuð ljóst er að kostnaður við greiðslumiðlun milli Rússlands og annarra landa verður mun hærri en verið hefur innan SWIFT.