Vegna þess að eftirlitsmyndavélar á Hótel Borgarnesi sýna ekki svæðið þar sem kjörgögn voru geymd getur lögregla ekki fullyrt, af eða á, um hvort farið var að svæðinu þar sem kjörgögn voru geymd á meðan yfirkjörstjórn var fjarverandi.

Þrír starfsmenn hótelsins tóku myndir inni í salnum klukkan 08:07 og 09:40 meðan yfirkjörstjórn var fjarverandi og sýna að kjörgögnin voru ekki geymd í lokuðum kössum eða undir innsigli.

Allnokkrir starfsmenn hótelsins höfðu lykla að dyrum eða aðgang að lyklum inn í salinn þar sem talning á atkvæðum Norðvesturkjördæmis fór fram. „Ekki er vitað hve margir lyklar eru til að þeim dyrum salarins sem hægt er að læsa,“ segir í svörum lögreglu til Alþingis.

Nefndarmenn í undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa skoðaði alla innganga að salnum í gær.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Þrír inngangar eru inn í salinn; aðalinngangur sem liggur að anddyri hótelsins, bakdyr um rými þar sem er loftræstibúnaður og þaðan að brunaútgangi og vængjahurðir að starfsmannarými. Samkvæmt lögreglu er hægt að læsa aðaldyrunum og bakdyrunum en ekki dyrunum að starfsmannaaðstöðunni.

Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að aðaldyrum að salnum og bakdyrum var læst eftir að yfirkjörstjórn fór af talningarstöð. Aftur á móti voru bakdyrnar opnar um nóttina „til að lofta út“. Þetta er staðfest með rannsókn á upptökum úr eftirlitsmyndavélum og segir lögreglan að ekki var hægt að staðfesta hvenær bakdyrunum var aftur læst.

Yfirkjörstjóri var ekki viss

Á því tímabili sem yfirkjörstjórn var fjarverandi gekk starfsfólk hótelsins um salinn. Af upptökunum virðist starfsfólk hótelsins vera að vinna við ýmis tiltektar- og frágangsverk sem tilheyra rekstri hótels.

„Starfsmaður hótels sést á upptöku ganga um salinn um það leyti sem yfirkjörstjórn er að fara, um kl. 7:14, og svo aftur upp um kl. 8:15, en ekki liggur fyrir í hvorri ferðinni tryggt var að bakdyrnar væru læstar. Því er ekki hægt að fullyrða hvort bakdyrum var læst um kl. 7:14 eða um kl. 8:15.“

Starfsfólk hótelsins segist aldrei hafa átt við kjörgögnin. Þrír af fjórum yfirkjörstjórnarmönnum sögðust trúa því að enginn hafi átt við kjörgögnin, einn sagðist ekki átta sig á því hvort hreyft hefði verið við kjörgögnum.

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar réttir Birni Leví Gunnarssyni, nefndarmanni undirbúningsnefndar, kassa með ónotuðum kjörseðlum.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Þann 26. september mætti Ingi Tryggvason fyrstur á staðinn samkvæmt lögreglu, klukkan 11:59 og hafi þá starfsmaður hótelsins aflæst aðaldyrum að salnum og farið. Sá næsti segist hafa komið klukkan 12:15, eða um korteri eftir að Ingi mætti.

Varðandi ákvörðun um endurtalningu daginn eftir sagði einn yfirkjörstjóranna að nokkur atkvæði hafi fundist í röngum flokkum og þá hafi verið borin upp spurning hvort það ætti að telja aftur.

  • Annar yfirkjörstjóranna sagði að þetta hafi ekki verið rætt sérstaklega.
  • Sá þriðji sagði að málið hafi verið rætt.
  • Sá fjórði sagði að engin umræða hafi átt sér stað og það hafi líklgea verið ákvörðun formanns og landskjörstjórnar að hefja endurtalningu.
  • Sá fimmti sagði að tilmæli hefðu komið frá landskjörstjórn um að hvort rétt væri að skoða endurtalningu.

Líkt og hefur áður komið fram var ekki búið að ná í alla umboðsmenn framboða þegar endurtalning hófst.

Engin eftirlitsmyndavél sýnir svæðið þar sem yfirkjörstjórn athafnaði sig og kjörgögn voru geymd á meðan yfirkjörstjórn var fjarverandi.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Staðsetningar eftirlitsmyndavéla

Alþingi spurði lögreglu út í staðsetningu og sjónarhorn eftirlitsmyndavéla á svæðinu, en tvær eru inni í salnum og þrjár utan við innganga og voru allar virkar.

  • Ein eftirlitsmyndavél er í anddyri hótelsins og sjónarhorn hennar er að aðalinngangi í salinn.
  • Tvær eftirlitsmyndavélar eru inni í salnum. Önnur þeirra er til hliðar við aðalinnganginn og sýnir meðal annars innganginn sjálfan. Hin er við dyr að starfsmannaaðstöðu og beinist á svæðið við þann inngang og í áttina að aðalinngangi.
  • Ein eftirlitsmyndavél er í starfsmannarými, við dyr milli salar og starfsmannaaðstöðu og beinist á svæðið við þann inngang.
  • Ein eftirlitsmyndavél er á bakhlið hússins, við brunaútgang, en hún sýnir ekki brunaútganginn sjálfan heldur beinist hún út á planið þar fyrir utan.
  • Engin eftirlitsmyndavél sýnir svæðið þar sem yfirkjörstjórn athafnaði sig og kjörgögn voru geymd á meðan yfirkjörstjórn var fjarverandi.

Alþingi óskaði eftir svörum um staðhætti á talningarstað og tilteknum framkvæmdaatriðum kosninganna. Hér má nálgast svör lögreglu í pdf formi:

Svör lögreglu við spurningum Alþingis.