Allir sem áætla að sækja viðburði þar sem 500 manns eða fleiri koma saman þurfa að fara í hraðpróf og skila vottorði um neikvæða niðurstöðu til þess að mega sækja viðburðinn. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin fjöldatakmörkunum og telja því ekki með í hámarksfjölda.

Með breyttum sóttvarnareglum sem tóku gildi 15. september mega 500 manns koma saman en með undantekningum mega allt að 1.500 manns koma saman á viðburðum. Það er, ef gestir geta sýnt fram á neikvæða niðurstöðu úr hraðprófi sem er ekki eldri en 48 klukkustunda gömul.

Á viðburðum þar sem koma saman allt að 500 manns þurfa gestir ekki að sýna fram á neikvætt hraðpróf. Enn er í gildi eins metra regla og skuli gestir skráðir með nafni, kennitölu og símanúmeri. Skráin skal varðveitt í tvær vikur og eytt að þeim tíma liðnum.

Heimilt er að halda einkasamkvæmi eftir miðnætti á stöðum sem hafa vínveitingaleyfi sé vínveitingaleyfið ekki nýtt og ekki komi nýir gestir í samkvæmið. Í slíkum samkvæmum má heildarfjöldi gesta ekki fara yfir 500 manns.

Hraðprófin sem gestir á stærri viðburði þurfa að fara í eru öllum að kostnaðarlausu og er hægt að fara í slík próf í húsnæði Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins á Suðurlandsbraut, á BSÍ, í Kringlunni, á Kleppsmýrarvegi, á Aðalgötu 60 í Reykjanesbæ og við Háskólann á Akureyri.

Öll þau sem hyggjast sækja viðburði þar sem koma saman fleiri en 500 manns þurfa að skrá sig í hraðpróf. Hjá þeim sem eru með rafræn skilríki fer skráning fram á mínum síðum á Heilsuveru en hjá þeim sem ekki eru með slík skilríki fer skráning fram á vefsíðunni hradprof.covid.is.

Vottorð um neikvæða neikvæða niðurstöðu er sent til viðkomandi í tölvupósti, vottorðin eru gefin út með QR kóða. Þau sem fá jákvæða niðurstöðu úr hraðprófi þurfa að fara í PCR próf og í einangrun, þessir einstaklingar mega ekki fara á viðburðinn sem fyrirhugaður er. Strikamerki fyrir PCR prófið verður sent um leið og jákvæð niðurstaða liggur fyrir.

Á viðburðum þar sem koma saman 500 eða fleiri skal viðhalda eins metra reglu nema þegar gestir eru sitjandi og skulu allir gestir skráðir með nafni, kennitölu og símanúmeri. Skrána skal geyma í tvær vikur og eyða henni svo. Gestum er aldrei skylt að gefa upp aðrar persónuupplýsingar en þær sem hér eru taldar upp þegar þau sækja viðburði, svo sem tölvupóstfang.

Gestir skulu bera andlitsgrímu þar sem ekki er unnt að viðhafa eins metra fjarlægð milli standandi gesta.