Grein Söru Bjarkar Gunnarsdóttur knattspyrnukonu um framkomu franska stórveldisins Lyon í sinn garð eftir að hún varð ólétt hefur vakið heimsathygli
„Ég bar mikla virðingu fyrir henni Söru Björk en þetta fannst mér algjörlega magnað hjá henni og ég tek hatt minn að ofan fyrir henni,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Hún og Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs, ræddu mál Söru Bjarkar í Fréttavaktinni á Hringbraut á föstudag.
Fyrrum landsliðsfyrirliðinn Sara Björk var á mála hjá Lyon frá 2020-2022 en er nú hjá ítalska stórliðinu Juventus. Sara Björk gagnrýndi viðbrögð Lyon við óléttu hennar harðlega. Félagið hafi hætt að borga henni full laun á meðan hún var ófrísk af syni sínum og fór hún í mál við félagið, sem hún vann. Sara Björk gagnrýndi einnig viðbrögð félagsins eftir að hún snéri aftur eftir barnsburð.
Einar segir málið sorglegt í alla staði. „Við viljum að það sé jafnrétti, við viljum að hlutirnir séu í lagi. Það er alveg óþolandi að konur þurfi enn þann dag í dag að fara í málaferli til að hafa grunn hluti í lagi,“ segir Einar jafnframt um málið og bendir á að þetta sé ekki fyrsta málið sem Sara Björk tæklar listilega vel.
„Sara Björk má eiga það fyrir þetta mál. Hún gagnrýndi Evrópumótið í Englandi í fyrra, kröftuglega. Hún hefur tekið þessi mál á kassann. Ef einhvern tímann hefur þurft þor að standa í hárinu á karlaklefanum þá var það þarna,“ segir Einar.
Þorgerður tekur undir með Einari. „Svona talar leiðtogi og svona gera fyrirmyndir. Ég held að þetta hafi skipt hafa sjálfa rosalega miklu máli, ég efast ekki um það, en um leið það sem hún er að gera fyrir næstu kynslóðir. Þær sem eru að koma líka á eftir henni, horfa til hennar. Hún er að nýta rödd sína, hún er að nýta stöðuna til að tala fyrir breytingum og tala fyrir því að það verði ekki aftur gengið svona á rétt kvenna,“ segir Þorgerður Katrín og bætir við að hún hafi heyrt um félög hérna heima sem hafi gert svipaða hluti.
„Ég hvet alla og íþróttahreyfinguna til að taka sérstaklega á þessum málum. Passa vel og gæta vel að jafnrétti. Ég bar mikla virðingu fyrir henni Söru Björk en þetta fannst mér algjörlega magnað hjá henni og ég tek hatt minn að ofan fyrir henni,“ segir hún.
Einar bendir á að börn séu ekki eingöngu börn mæðra sinna, heldur séu oft feður á heimilunum líka. „Þetta er bara jafnréttismál allan hringinn. Það eru fáar en mjög kjarkaðar konur sem hafa gengið svona fram og staðið svona verulega uppi í hárinu á svona ranglæti og þær eru að gera þetta fyrir allar hinar. Þær sem á eftir henni koma hafa glæsilega fyrirmynd að fylgja.“
Margar af helstu knattspyrnukonum heims hafa tekið undir orð Söru Bjarkar. „Ég er náttúrulega ofboðslega sátt við það að það var íslensk kjörkuð kona sem steig þetta skref og vakti athygli á þessu óréttlæti,“ segir Þorgerður Katrín að lokum.