Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Laugardagur 15. maí 2021
07.00 GMT

Umræðan í samfélaginu undanfarnar vikur varð til þess að Linda ákvað að stíga fram og segja sína sögu. Meint ofbeldisbrot fjölmiðlamannsins Sölva Tryggvasonar hafa farið hátt í fjölmiðlum en fyrrverandi sambýlismaður Lindu, sem hún lagði fram kæru gegn fyrir ári síðan, hefur undanfarin ár einnig fengið töluvert pláss í fjölmiðlum sem hún segir hafa ýft upp sárin í hvert sinn.

„Hann var í sjónvarpsþáttum sem gerði það að verkum að hann var mikið í umfjöllun og það birtust jafnvel stórar myndir af honum á strætóskýlum.“ Linda segir umfjöllunina hafa gert það að verkum að henni var komið í tengingu við fleiri konur sem lagt hafi fram kæru á hendur manninum, meðal annars Söru Regal.

Héldu að þær stæðu einar

„Það er ástæðan fyrir því að við komum allar saman. Það er trigger fyrir okkur að hann væri skyndilega kominn inn í stofu til okkar. Þess vegna fóru allir að tala um reynslu sína aftur og þannig komumst við í samskipti, en við þekktumst ekkert áður. Við héldum allar að við stæðum einar með okkar sögu og þegar við heyrðum af hinum varð áfallið enn stærra enda sást þá að ofbeldið var kerfisbundið,“ segir Linda og bendir á að jafnframt sé maðurinn með trúnaðarmann í AA-samtökunum sem hafi varið hann út á við og sagt sögur af ofbeldi vera lygar.

„Hann er með fjölmiðlamann á sínum snærum. Sá er með mikið stærra platform en við og vill meina að hann sé góður strákur.“


„Við héldum allar að við stæðum einar með okkar sögu og þegar við heyrðum af hinum varð áfallið enn stærra enda sást þá að ofbeldið var kerfisbundið,“


Var brotin þegar þau kynntust


„Við vorum saman í um tvö ár, svona „on and off“. Hann hitti mig á tímapunkti þar sem ég var gjörsamlega búin andlega. Besti vinur minn var nýdáinn og ég var bara brotin. Það er kannski eitthvað sem hann leitaðist eftir,“ segir Linda sem var 29 ára þegar sambandið hófst.

„Við byrjum saman og það var allt mjög gott fyrst og hann æðislegur þó það hafi auðvitað komið upp atriði sem ég sá alveg að voru ekki í lagi. Hann fór þó eiginlega ekki að sýna sitt rétta andlit fyrr en við fluttum inn saman. Þetta hófst á andlegu ofbeldi, það voru athugasemdir um hversu heimsk ég væri þegar ég var að setja lak á rúmið, gerði það aldrei rétt og þar fram eftir götunum. Svo fór hann að segja mér hvernig ég ætti að klæða mig og hvernig ég ætti að greiða á mér hárið.


„Hann fór þó eiginlega ekki að sýna sitt rétta andlit fyrr en við fluttum inn saman."


Ég sagði einhvern tíma við hann: „Værirðu einhvern tíma til í að hrósa mér?“ En hans svar var: „Nei, ég ætla ekki að hrósa þér, ég ætla að brjóta þig niður svo ég geti í framhaldi byggt þig upp eins og ég vil hafa þig.“

Lét höggin dynja

Linda lýsir atvikinu sem hún kærði til lögreglu.

„Það var þannig að hann kom heim af fylleríi og mig grunaði að hann hefði verið að sofa hjá einhverri stelpu. Ég kíkti því í símann hans og sá að hann var að senda henni skilaboð um hversu gott það hefði verið að sofa hjá henni. Þetta var auðvitað kærastinn minn svo ég bara trompaðist. Ég vakti hann og sagði honum að drulla sér út – þetta væri búið. Hann kýldi mig í andlitið svo það sprakk á mér vörin. Ég reyndi að segja honum að fara út en hann hélt áfram að láta höggin dynja.“

Linda gerir hlé á frásögn sinni sem augljóslega tekur á.

„Maður var orðinn svo mikil brúða og lét sig hafa ýmislegt sem fór yfir mörk manns og maður vildi ekki. Maður er algjörlega orðinn undir stjórn einhvers aðila enda kominn á það stig að finnast maður ekki mikils virði,“ segir hún og heldur áfram með frásögnina af morgninum örlagaríka:

„Hann tók beltið af buxunum sínum og sló mig með sylgjunni í bakið. Ég er hágrenjandi þegar hann kemur á eftir mér inn í stofu og hrindir mér þannig að ég dett í gólfið á öxlina og finn strax að það er eitthvað mikið að. Ég ligg þarna hágrenjandi og hann fer inn í rúm að sofa.


Vinkona keyrði hana á spítala

Ég hringdi þá í vinkonu mína, sagði henni hvað hefði gerst og að ég væri viss um að ég væri farin úr axlarlið og hún yrði að fara með mig upp á spítala. Ég var í algjörri hysteríu og öðrum heimi.“

Þegar komið var á bráðamóttöku segist Linda hafa verið spurð hvað hafi komið fyrir hana. „Ég svaraði að ég hefði dottið og var þá spurð aftur hvað hefði komið fyrir mig. Þá brotnaði ég saman og sagðist hafa orðið fyrir líkamsárás af völdum kærasta míns. Þá var tekin skýrsla af mér og myndir. Í ljós kom að ég var viðbeinsbrotin, með sprungna vör, með áverka á höfði og sár, ég var með handaför á bakinu, og á kviðnum sem var hringlaga, eins á bakinu og með mar á úlnliði og rist.“


„Í ljós kom að ég var viðbeinsbrotin, með sprungna vör, með áverka á höfði og sár, ég var með handaför á bakinu, og á kviðnum sem var hringlaga, eins á bakinu og með mar á úlnliði og rist.“


Samkvæmt áverkavottorði undirrituðu af sérfræðilækni á bráða- og göngudeild Landspítala háskólasjúkrahúss, Fossvogi, voru áverkarnir á líkama Lindu átta talsins.

Sagðist hafa lent í árekstri


Linda segist í kjölfarið fljótlega hafa farið aftur til sambýlismanns síns.

„Það er eiginlega bara þannig. Hann baðst afsökunar á þessu og ég elskaði hann svo mikið. Ég sagði samt strax mömmu og pabba hvað hefði komið fyrir svo ég varð að halda sambandi okkar leyndu. Ég gat ekki sagt neinum að við værum byrjuð aftur saman.“

Linda fór í skólaferðalag stuttu eftir árásina með höndina í fatla og sagði við alla að hún hefði lent í árekstri „Sömu sögu sagði ég þegar við fórum í mat til foreldra hans og ég sat við hlið hans í fatla.“

Linda segist þó hafa bundið enda á sambandið um hálfu ári síðar.

„Ég vissi að ég gæti ekki verið með honum lengur. Ég fann að ástin var farin og þegar ástin var farin náði ég einhvern veginn að slíta þessi bönd sem hann var búinn að festa mig í.“


Orð gegn orði


Linda segist ekki hafa unnið úr áfallinu sem hafi haft rosaleg áhrif.
„Nú er ég komin í annað samband með aðila sem styrkir mig í öllu sem ég geri og finn það að ég er gjörsamlega brotin eftir þetta samband. Ef ég lendi í aðstæðum þar sem einhver æsir sig frýs ég bara og sjálfsöryggið er svo brotið að ég á erfitt með að standa á mínu.“

Linda segir upplifunina af því að kæru hennar hafi verið vísað frá svipaða því og brotið hafi verið á henni aftur. Fréttablaðið/Ernir

Linda kærði atvikið fimm árum síðar eins og fyrr segir sem er innan fyrningarfrests þegar um alvarlega líkamsárás er að ræða eins og þessi árás er flokkuð.

„Ég áttaði mig ekki almennilega á hverju ég hefði orðið fyrir fyrr en ég fór að opna á það.“

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu vísaði kærunni frá með eftirfarandi orðum:

„Í máli þessu standa orð gegn orði en engin vitni eru til staðar. Sönnunarstaða málsins er því mjög erfið en nokkuð langt er um liðið síðan atvik áttu sér stað og gegn eindreginni neitun kærða, og á grundvelli fyrirliggjandi gagna í málinu, er það mat lögreglu að frekari rannsókn verði ekki til þess að upplýsa nánar um málsatvik.“

„Ég lendi í þessu ofbeldi sem ég kæri. Ég er með vitni sem kemur og sækir mig. Ég er með áverkavottorð. Það eru teknar myndir af mér uppi á spítala. Ég tilgreini foreldra mína sem vitni og ég nefni aðrar konur sem hafa kært hann fyrir ofbeldi. Hjá lögreglu er mál mitt fellt niður því það er sagt orð gegn orði og það sé svo langt um liðið. En þetta er þó innan fyrningartímans.

Hann sagði í yfirheyrslu að ég hefði stigið aftur fyrir mig og dottið en var ekki spurður út í hvernig ég hefði annars fengið alla þessa áverka,“ segir Linda og bendir á að erfitt væri að fá þá áverka sem í vottorðinu sé lýst með því einu að detta aftur fyrir sig.

Ekki kallað eftir myndum


„Í skýrslu lögreglu segir að engar myndir fylgi, en í áverkavottorðinu segir að myndir séu til, lögregla verði einungis að biðja um þær. Það stendur handskrifað af lækni auk þess að hann skrifar að ég hafi komið vegna árásar kærasta sem hafi meðal annars barið mig með beltissylgju, eins lýsir hann því í hvernig ástandi ég er, gjörsamlega í áfalli. Það er eins og lögreglan hafi ekki skoðað þetta enda kallar hún hvorki foreldra mína né aðrar konur sem ég sagði frá að hefðu orðið fyrir ofbeldi af hans hálfu til sem vitni.“


„Það er eins og lögreglan hafi ekki skoðað þetta enda kallar hún hvorki foreldra mína né aðrar konur sem ég sagði frá að hefðu orðið fyrir ofbeldi af hans hálfu til sem vitni.“


Þegar Linda fékk þær fregnir að kæru hennar væri vísað frá ákvað hún að kæra frávísunina og kalla eftir fundi við Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra .

„Hún hefur gefið sig út fyrir að vilja berjast gegn heimilisofbeldi en þegar ég hef samband er ég spurð um hvað málið varði þegar ég segist vilja ræða þessi mál við hana, enda sé ég sjálf þolandi með kæru í gangi.

Svörin sem ég fékk var að hún væri ekki með mitt mál og því gæti hún engu svarað. Ég kom því að lokuðum dyrum og var bent á að hafa samband við lögreglustjóra, Höllu Bergþóru Björnsdóttur, þar sem ég kem aftur að lokuðum dyrum. Þær voru ekki með mitt mál til rannsóknar en sjálf vildi ég ræða vinnubrögð lögreglunnar í þessum efnum. Þetta eru mjög viðkvæm mál sem lögreglan hefur til rannsóknar en mér finnst þau bara hafa verið rannsökuð með rassgatinu.“


Hann nýtur vafans

„Mér finnst ég hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu gerandans og nú aftur af hálfu lögreglunnar. Það er bara verið að brjóta á mér aftur. Það er ekkert réttlæti, ekki neitt. Það að mitt mál hafi verið fellt niður með öll þessi gögn, þegar ég loksins kæri hann eftir allan þennan tíma, sýnir að réttarkerfið stendur með ofbeldismanninum en ekki þolanda og hann fær að njóta vafans.“


„Það að mitt mál hafi verið fellt niður með öll þessi gögn, þegar ég loksins kæri hann eftir allan þennan tíma, sýnir að réttarkerfið stendur með ofbeldismanninum en ekki þolanda og hann fær að njóta vafans.“


Lindu finnst fyrningartími slíkra mála of stuttur enda geti tekið tíma að koma sér út úr ofbeldissambandi.

„Ef ekki er um alvarlega líkamsárás að ræða fyrnist ofbeldið á tveimur árum en ef árásin er alvarleg þá eru það fimm ár. Þegar um heimilisofbeldi er að ræða er þetta flókið því þolandinn er kannski áfram í sambandinu í segjum þrjú ár eftir ofbeldið. Þegar þolandinn svo kemst loks út úr sambandinu er brotið þá mögulega fyrnt.“

Hún ítrekar að saga hennar sé ekkert einsdæmi.

„Við erum sex konur sem höfum orðið fyrir ofbeldi af hans hendi, allar hver úr sinni áttinni en erum bara þrjár sem treystum okkur til að kæra. Ein í viðbót lagði svo inn skýrslu hjá lögreglunni.“

Linda hefur kært frávísun lögreglu og fer fram á að málið sé tekið upp, svars er að vænta í næstu viku.

„Svona menn þarf að stoppa og réttarkerfið þarf að standa með okkur. Markmið mitt er að fá réttlætið fram þar sem augljóslega var brotið á mér og aðallega að reyna að koma í veg fyrir það að menn eins og hann komist upp með slíkt ofbeldi gagnvart konum,“ segir Linda.

Linda og Sara vissu ekki hvor af annarri fyrr en þær voru leiddar saman og hafa nú kært sama manninn fyrir ofbeldi en þriðja kæran liggur jafnframt fyrir. Þær segjast hafa sótt mikinn stuðning hver til annarrar, allar þrjár. Fréttablaðið/Enir

Slóð af brotnum konum


Sara Regal var í ástarsambandi við umræddan mann árið 2019. Hún hefur nú lagt fram kæru til lögreglu vegna ofbeldis sem hún segist hafa orðið fyrir af hans hálfu á því tímabili.

Hún treysti sér ekki til að segja sögu sína í viðtali við Fréttablaðið en stígur þó fram til að styðja við sögu Lindu og standa með öðrum konum sem hún segist vita til þess að hafi lent í sama manni.

„Umræðan í þjóðfélaginu upp á síðkastið er búin að vera þung fyrir alla þolendur ofbeldis, hún ýfir upp gömul sár og ekki síst vegna þessarar gífurlegu gerendameðvirkni sem er ekkert nema þjóðfélagsmein. Það er eins og ofbeldi ofan á ofbeldi þegar maður sér geranda sinn halda áfram að lifa sínu lífi eins og ekkert hafi í skorist, og sé jafnvel hampað í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum á meðan maður er sjálfur að tína saman brotin og glíma við afleiðingar ofbeldisins,“ en Sara hefur verið greind með áfallastreitu í kjölfar brotsins og hefur sálfræðingur staðfest það við Fréttablaðið.


„Það er eins og ofbeldi ofan á ofbeldi þegar maður sér geranda sinn halda áfram að lifa sínu lífi eins og ekkert hafi í skorist, og sé jafnvel hampað í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum á meðan maður er sjálfur að tína saman brotin og glíma við afleiðingar ofbeldisins.“


Sársaukafullt ferli

„Hann er búinn að skilja eftir sig slóð af brotnum konum og ég hef verið í tvö ár að tjasla mér saman,“ segir hún

„Síðan er það bara staðreynd að réttarkerfið er okkur ekki í hag. Mér var beinlínis ráðlagt frá því að leggja fram kæru af nokkrum mismunandi aðilum sem hafa gengið í gegnum allt kæruferlið og þeirra mál endað með niðurfellingu eða sýknu. Þau segja að þetta sé allt of langt og sársaukafullt ferli sem í langflestum tilfellum skili engu, nema því að tefja fyrir þeirra eigin heilunarferli. Það leikur sér enginn að því að kæra, við vitum þegar við förum út í það að tölfræðin vinnur ekki með okkur, en þetta er auðvitað eina leiðin til að leita réttar síns þegar brotið hefur verið á manni.“


„Hann er búinn að skilja eftir sig slóð af brotnum konum og ég hef verið í tvö ár að tjasla mér saman.“


Sara lagði fram kæru á svipuðum tíma og Linda, eða fyrir um ári síðan, og hefur ekki enn fengið viðbrögð við henni frá lögreglu.

Allar eru þær þrjár sem lagt hafa fram kæru með sama lögmanninn, Oddgeir Einarsson hjá Land Lögmönnum. Þær þekktust ekki fyrir en voru leiddar saman þegar umfjöllun um nýtt samband mannsins komst í hámæli í fjölmiðlum og hafa allar leitað sér aðstoðar hjá Bjarkarhlíð.

Þögnin besti vinur ofbeldisfólks

Ragna Björg Guðbrandsdóttir er teymisstjóri Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, og félagsráðgjafi að mennt.Ragna segir verklag lögreglu í kynferðisbrotamálum hafa verið að þróast þó að niðurfellingar eins og í tilfelli Lindu séu erfiðar viðureignar.

„Þegar mál til að mynda eru felld niður hjá héraðssaksóknara býður hann núorðið brotaþola upp á viðtal til að skýra ákvörðunin. Þetta verklag byrjaði í Vestmannaeyjum en er nú um allt land,“ og segir Ragna það mjög til bóta.

Ragna Björg Guðbrandsdóttir er teymisstjóri Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis og félagsráðgjafi að mennt. Hún segist hafa merkt mikla aukningu í óskum eftir viðtölum undanfarnar tvær vikur. Mynd/Aðsend

Kæra Lindu er felld niður á þeim grundvelli að um sé að ræða orð gegn orði og meintur gerandi neiti sök

„Varðandi orð gegn orði myndi ég vísa ég í greinargerð Hildar Fjólu Antonsdóttur, Réttlát málsmeðferð með tilliti til þolenda kynferðisbrota frá árinu 2019.

Sjaldnast vitni til staðar

Þar er svolítið verið að benda á að ekki sé hægt að nota sömu sönnunarfærslu þegar kemur að ofbeldi í nánum samböndum enda eru sjaldnast vitni til staðar auk þess sem svo margt er undirliggjandi. Oft er um að ræða andlegt ofbeldi og hótanir sem brotaþoli þarf að stíga út úr til að komast út úr ofbeldissambandi, hvað þá að kæra gerandann,“ segir Ragna og bendir þannig á að flókið geti verið að fyrir þolanda ofbeldis í nánu sambandi að kæra.

„Í alvarlegustu ofbeldismálunum leggur lögreglan sjálf fram kæru svo brotaþoli þarf ekki að gera það.“

Ragna bendir jafnframt á að um flóknar rannsóknir sé að ræða.„Í Bjarkarhlíð vinnum við bara með brotaþolum og erum því aðeins með þeirra hlið en það er bara ákæruvaldið sem hefur öll gögnin.“

Kerfi lengi að breytast

Hinn rökstuðningurinn fyrir frávísun kæru Lindu var að nokkuð langt væri um liðið sem gerði sönnunarstöðu málsins erfiða en Ragna segir það eðli mála sem fjalla um ofbeldi í nánum samböndum, að þau geta komið seint fram.

„Maður myndi ætla að það þyrfti að horfa til þess í rannsókninni. Dómstólarnir og réttarvörslukerfið hefur kannski ekki náð að fylgja eftir þróuninni sem hefur orðið á þekkingu okkar á afleiðingum ofbeldis, sem eru sannarlega miklar. Maður sér samt að réttarvörslukerfið er að taka betur á þessum málum, sem mér finnst merki um þróun í rétta átt. En það tekur svo langan tíma fyrir kerfi að breytast.“

Linda nefnir það í viðtalinu að hafa upplifað frávísun kæru sinnar eins og verið væri að brjóta á henni aftur og segist Ragna oft heyra svipaðar upplifanir frá skjólstæðingum sínum.

Óvinnufærar og heilsulausar

„Margar konur verða óvinnufærar og missa heilsuna á meðan kæruferlið er í gangi. Hvað þá þegar niðurstaðan er þessi, að málinu sé vísað frá. Þetta er mikið álag og við heyrum þetta oft, að upplifunin sé eins og aftur sé brotið á þolandanum.“

Athugasemdir