Tvær arkitektastofur hafa verið valdar til að endurgera Hlemmsvæðið í miðborg Reykjavíkur. Þær munu vinna saman að hönnun á torginu út frá forsendum deiliskipulags sem unnið verður á grunni tillagna hugmyndaleitarinnar.

Um er að ræða stofurnar Mandaworks og DLD, en sú fyrrnefnda hefur aðsetur í Svíþjóð og sú síðarnefnda á Íslandi. Matsnefndin taldi tillögur þeirra feikilega góðar og spila vel saman og taldi þær bæta hvor aðra upp. Borgin hafði efnt til hugmyndaleitarinnar með því að fá þrjár arkitektastofur til þess að spreyta sig á svæðinu og voru sem fyrr segir, umræddar tvær stofur valdar til verksins. 

Matsnefndin hafði þetta að segja um tillögu Mandaworks:

„Tillaga Mandaworks er sannfærandi og djörf. Hún grípur andann á Hlemmi sem nútímalegt borgarumhverfi. Í tillögunni er mikill leikur og sögulegar tengingar vel útfærðar með Rauðaránni sem læðist upp í gegnum gangstéttina sem gufa. Rýmismyndun er góð. Það er mikill kostur að raða hýsunum við norðurenda torgsins sem myndi styrkja götumynd Hverfisgötu. Tillagan ætti að gefa fólki ástæðu til að staldra við á svæðinu. Hún dregur líf og leik inn á svæðið sem er mjög áhugavert og þarft.“

Og um tillögu DLD

„Tillaga DLD er hlý, nærgætin og umbreytir útliti svæðisins. Hún er sannfærandi og lífleg og styrkir svæðið fyrir viðburði og sem stað til að staldra við eða dvelja á.“ Hins vegar skorti upp á hlýleika og hjá Mandaworks en að þar liggi styrkleiki DLD. Að sama skapi leysi DLD væntanlegar Borgarlínustöðvar á faglegan hátt. 

Stefnt er að því að nýtt deiliskipulag liggi fyrir í haust og að þá geti hönnunarvinna hafist.