Björgunar­sveitin Þor­björn birti fyrr í dag leið­beiningar að því hvernig best sé að komast að eld­gosinu í Mera­dölum. Gera má ráð fyrir að gangan taki fimm til sex klukku­stundir hið minnsta, segir í færslu björgunar­sveitarinnar.

„Gangan að nýja hrauninu og gígnum er að lág­marki 7 kíló­metrar aðra leið og hækkunin er um 300 metrar. Það þýðir að heildar göngu­ferðin getur verið rúmir 14 kíló­metrar um nokkuð tor­fært svæði og eru mjög brattar brekkur í ná­grenni gígsins,“ segir í færslunni.

Hægt er þó að ganga styttri leið, sem er að­eins fimm kíló­metrar en þá er gengið að út­sýnis­palli þar sem gígurinn sést.

Best er að leggja bílum á bíla­stæðinu við göngu­leið A og fylgja þeirri leið alveg að Fagra­dals­fjalli. Þegar komið er upp á fjallið er haldið eftir sléttunni til norð­vesturs þar til gosið sést.

Verið er að vinna í slóða­málum og merkingum til þess að gera gönguna eins að­gengi­lega og örugga og hægt er.

Björgunar­sveitin Þor­björn bendir á nokkra mikil­væga hluti sem gott er að fara yfir fyrir göngu.

  1. Besta leiðin að gosinu fer eftir vind­átt og veðri hverju sinni, fylgist því vel með til­mælum Lög­reglu og við­bragðs­aðila.

  2. Verið vel út­búin. Mikil­vægt að vera vel klædd, með nesti, góða skó, höfuð­ljós og full­hlaðinn síma.

  3. Skiljið bílinn ykkar eftir á bíla­stæði en ekki í veg­köntum. Það er nóg af stæðum fyrir alla.

  4. Gasmengun er á svæðinu og gæti safnast í lægðum. Nauð­syn­legt er að forðast reykinn af gosinu.

  5. Gamla hraunið er enn þá heitt og stór­hættu­legt yfir­ferðar. Vin­sam­legast gangið ekki á hrauninu.

Sjá má færslu Þorbjarnar í heild sinni hér að neðan: