„Auðvitað er maður glaður þegar vel gengur hjá þeim,“ segir Guðni Kjartan Franzson, kennari við Tónlistarskóla FÍH og Listaháskóla Íslands og faðir Óskarsverðlaunatónskáldsins Hildar og Þórarins sem sér um tónlistina í Dýrinu – sem verður framlag Íslands á Óskarsverðlaununum á næsta ári.

Þó að Þórarinn sé ekki tilnefndur fyrir tónlistina í myndinni hefur hún fengið mikið lof. Mun hann því klæða sig upp á fyrir Óskarsverðlaunin 2022 og feta þar með í fótspor systur sinnar en hún hlaut styttuna eftirsóttu í fyrra fyrir tónlistina í Jókernum.

Guðni er einn af af okkar fremstu klarínettleikurum þó að hann sé aðeins farinn að setja blásturinn á hilluna og einbeita sér að stjórnun, en hann stýrir gjarnan Caput-hópnum sem hann kom að stofnun á árið 1987.

Þá hefur hann stundum stýrt Sinfóníuhljómsveit Íslands og þá stýrði hann hljómsveitinni í útskriftarverki Þórarins. Sjálfur hefur hann hlotið verðlaun fyrir tónsmíðar sínar.„Ef ég get hjálpað þeim með eitthvað þá geri ég það að sjálfsögðu en annars sigla þau sinn sjó,“ segir Guðni sem var í hádegishléi í sjóbirtingsveiði þegar Fréttablaðið sló á þráðinn til hans.

Tenging fjölskyldunnar í tónlist er í gegnum tónskáldið Jóhann heitinn Jóhannsson þó að þau Hildur og Þórarinn hafi unnið töluvert saman.

„Þau voru bæði að vinna með Jóa. Ég var með honum lengi á tímabili og ætli hann tengi okkur ekki saman tónlistarlega. Í gegnum hann hafa leiðir okkar aðeins krossast.“Guðni segir að tónlist hafi vissulega verið fyrirferðarmikil á heimilinu. „Þau hafa verið í kringum tónlist frá blautu barnsbeini.

Ég hef ekkert verið að kenna þeim eða segja hvað þau eigi að gera – þau hafa farið bara sína leið. Kannski hefur það áhrif að ég hafi verið í þessu,“ segir hann um leið og hádegishléið er búið í veiðinni.Það er kominn tími til að klæða sig í vöðlurnar á ný og kasta út.