Sigurður Ragnar Kristinsson tók sér frest til þess að taka afstöðu til ákæru í Skáksambandsmálinu svonefnda þegar það var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Tveir aðrir eru ákærðir og tók annar þeirra sér einnig frest til þess að svara til saka. Hinn játaði sök að hluta.

Þremenningunum er gefið að sök að hafa staðið að og tekið þátt í innflutningi á miklu magni fíkniefna hingað til lands frá Spáni. Um var að ræða sex kíló af fíkniefnum sem falin voru í skákmunum sem sendir voru til Skáksambands Íslands. Sambandið tengist innflutningnum ekki á neinn hátt.

Hefur játað sök

Sigurður Ragnar hefur verið talsvert í fréttum að undanförnu en hann er fyrrverandi eiginmaður Sunnu Elviru Þorkelsdóttur sem slasaðist alvarlega þegar hún féll milli hæða á heimili þeirra á Malaga á Spáni í janúar. Þá er Sigurður einnig ákærður fyrir stórfellt skattalagbrot í gegnum fyrirtæki hans, SS verk. Sigurður hefur neitað sök í því máli. 

Sjá einnig: Keypti fíkniefnin á Benidorm

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur Sigurður Ragnar játað fyrir lögreglu að hafa ætlað að flytja inn fíkniefni til Íslands. Hann ákvað hins vegar í morgun að taka sér frest til þess að taka afstöðu til ákærunnar. Félagi Sigurðar tók sömu ákvörðun, en sá þriðji játaði atvikin en sagðist ekki hafa vitað að um fíkniefni hafi verið að ræða.