Hvergi virðist hafa verið fylgst með að ekki yrði farið fram úr samþykktum fjárheimildum við byggingu braggans í Nauthólsvík. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um málið. Þar segir meðal annars að verktakar og aðrir sem unnu verkið hafi almennt verið ráðnir af því að þeir voru kunnugir þeim sem stóðu að framkvæmdunum, „allflestir handvaldir“. 

Fram kemur að farið hafi verið fram úr samþykktum fjárheimildum og þess ekki gætt að sækja viðbótarfjármagn áður en stofnað var til kostnaðar. Það er brot á sveitarstjórnarlögum og reglum borgarinnar. Bragginn hefur kostað borgarbúa 425 milljónir krónar en 352 milljónum hefur verið úthlutað til verkefnisins. „Svo virðist sem hvergi hafi verið fylgst með því að verkefnið væri innan fjárheimilda,“ segir í skýrslunni.

Þar kemur fram að upplýsingar til borgarráðs hafi ekki verið ásættanlegar. Dæmi séu um að villandi eða jafnvel rangar upplýsingar hafi farið til ráðsins auk þess sem borgarráð var ekki nægilega upplýst um framvindu mála. „Óásættanlegt er að upplýsingagjöf til borgarráðs sé þannig háttað því á upplýsingum byggir ráðið ákvarðanir sínar.“

Hrólfur Jónsson, fyrrverandi skrifstofustjóri eigna er harðlega gagnrýndur í skýrslunni. „Fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sinnti ekki sinni stjórnendaábyrgð með því að fylgjast með verkefnum skrifstofunnar og upplýsa sína yfirmenn svo og borgarráð. Svo virðist vera sem verkefnið hafi einhvern veginn „gleymst“ og týnst meðal stærri og meira áberandi verkefna. 

Fram kemur að svo virðist sem enginn hafi haft eftirlit með verkefninu sem hafi lifað sjálfstæðu lífi, án aðkomu annarra en þess þrönga hóps sem annaðist það: 

„Skjölun vegna verkefnisins var ófullnægjandi, nánast engin skjöl um það fundust í skjalavörslukerfi borgarinnar og það er brot á lögum um opinber skjalasöfn svo og skjalastefnu borgarinnar.

Almennt eykst misferlisáhætta í beinu hlutfalli við minnkandi eftirlit, minna gagnsæi, minna aðhald stjórnenda og þegar reglum er ekki framfylgt. Niðurstöður Innri endurskoðunar benda eindregið til þess að kostnaðareftirliti hafi verið ábótavant og hlítni við lög, innkaupareglur, starfslýsingar, verkferla, ábyrgð og forsvar hafi ekki verið nægjanleg.

Í skýrslunni segir að fram skrifstofustjóranum og verkefnastjóra SEA hafi ekki borið saman um hvernig upplýsingagjöf var háttað. „Sá fyrrnefndi

kveðst ekkert hafa fylgst með framkvæmdum en sá síðarnefndi kveðst hafa upplýst hann um stöðu mála.“ Ekki hafi reynst unnt að sannreyna hvor fer með rétt mál þar sem engar skriflegar heimildir liggi fyrir um upplýsingagjöf þeirra á milli. „Skrifstofustjóranum [Hrólfi, innsk.blm] bar að fylgjast með verkefnum skrifstofunnar og kalla eftir upplýsingum um framvindu þeirra frá verkefnastjóranum, það er hluti af hans starfsskyldum. Hann hefur skýrt upplýsingaskortinn með því að þannig hafi skrifstofan verið rekin en slíkur rekstur þar sem höndlað er með milljarða króna af almannafé er óásættanlegur og honum þarf að breyta.

Í skýrslunni segir að engir skriflegir samningar hafi verið gerðir varðandi verkefnið, að undanskildum leigusamningi við HR. „Ráðgjafar innkaupadeildar var ekki leitað varðandi innkaup til framkvæmdanna og ekki var farið að innkaupareglum borgarinnar. Lög um opinber innkaup voru ekki brotin. Verktakar og aðrir sem unnu verkið voru almennt ráðnir af því þeir voru kunnugir þeim sem stóðu að framkvæmdunum, allflestir handvaldir. Ekki var farið í innkaupaferli né leitað undanþágu frá innkauparáði varðandi það.“

Þess má geta að Hrólfur Jónsson sagði við fjölmiðla í október að hann bæri ábyrgð á þessu máli. Hann lét af störfum í apríl.