Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar sem sat í kjörbréfanefnd síðasta kjörtímabil, segir að ef kosið verði á ný í Norðvesturkjördæmi ýti það undir líkur á að þeir sem greiði atkvæði kjósi strategískt en ekki endilega samkvæmt eigin sannfæringu.

Ólíklegt sé að flokkar sem ekki náðu framgangi fái atkvæði og margs konar mengunaráhrif geri slíka kosningu vafasama. Af þessum sökum vakni sú spurning hvort það þurfi að kjósa á ný í öllum kjördæmum.

Framkvæmd atkvæðatalningarinnar er ekki samkvæmt lögum, segir Helga Vala í samtali við Fréttablaðið.

Enginn vafi leiki á því að innsigla verði kassa, þess vegna séu kjörstöðum send innsigli af kjörstjórn. „Þau fá kassa, kjörseðla og innsigli. Engin afsláttur gefinn af því. Af því leiðir að það var ekki farið að lögum í NV-kjördæmi og þá spyr ég: Hvernig var að þessu staðið í hinum kjördæmunum? Er gefinn sami afsláttur þar?“

Ef landskjörstjórn mun úrskurða að það þurfi að endurtaka kosninguna í NV-kjördæmi segir Helga Vala að kosningin hafi ekki bara áhrif á þetta kjördæmi, útkoman geti haft rosalega mikil áhrif á allt landið. Þá sé kominn hvati til að kjósandinn geti haft áhrif á önnur úrslit, t.d. geti þeir sem kusu flokka sem ekki náðu inn manni ákveðið að ráðstafa atkvæði sínu á annan hátt. Heildarúrslit geti orðið allt önnur.

„Þá fer fólk að kjósa taktískt og hér tjái ég mig ekki sem þingmaður heldur áhugamaður um kosningar og lýðræði. Þegar við kjósum taktískt þá kjósum við eftir öðru en hjartanu. Þá komum við líka að þessu kosningakerfi sem er mjög gallað og veldur vantrtrausti vegna misvægis atkvæða. Íbúar á einu svæði hafa meiri áhrif en aðrir og það hefur áhrif á uppbótarþingmannarúlettuna. Þetta er það mikið klúður að það vakna spurningar um hvort kjósa þurfi á öllu landinu aftur,“ segir Helga Vala.