„Þetta er galið, þetta eru galin áform,“ segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og íbúi á Selfossi. „Kötluvikurinn getur ekki verið svona dýrmætur, það stendur ekkert undir svona flutningum nema gull eða fíkniefni.“

Guðni er í hópi fjölmargra íbúa á Suðurlandi sem bregðast hart við og mótmæla áformum þýsk-íslenska fyrirtækisins EP Power Minerals um stórfellda flutninga á vikri um þjóðvegi landsins langa leið.

Áform eru um að drekkhlaðnir vörubílar aki Suðurlandsveg frá Hafursey við Hjörleifshöfða að Þorlákshöfn til útskipunar á fimmtán mínútna fresti allan sólarhringinn. Gríðarlegt álag yrði á vegina auk margs konar mengunar og óæskilegra umhverfisáhrifa. Sveitarstjórn Mýrdalshrepps ályktaði í gær og mótmælir því sem fram kemur í umhverfismatsskýrslu frá Eflu að áhrif flutninganna yrðu minni háttar. Hið rétta sé að mikil og skaðleg áhrif yrðu sem dæmi á ferðaþjónustu.

„Öll leiðin frá Vík til Þorlákshafnar neitar að þetta geti gerst,“ segir Guðni. „Þetta getum við Sunnlendingar ekki látið yfir okkur ganga.“

Meðal mótraka sem Guðni nefnir eru að gatnabrúnir á hluta vegkaflans kalli meira og minna á keðjur á dekk stóru bílanna allan veturinn. Auk þess sem umferðaröryggi yrði stefnt í hættu beri vegurinn alls ekki svona umferð. Vikurinn fer samkvæmt áformum í gegnum Hvolsvöll, Hellu og Selfoss.

„Ég bý við hringtorg við Brúarstræti 1 í nýja miðbænum við Selfoss. Ég fylgist með umferðinni, það er bíll við bíl og örtröð um helgar. Þessi vegur er ekki gerður fyrir svona flutninga,“ segir Guðni.

Einar Freyr segir Mýrdalshrepp ekki leggjast gegn námuvinnslunni heldur flutningunum.

Guðni nefnir að ný höfn eða dæling efnisins frá landi um borð í skip nær námunni hljóti að verða niðurstaðan. Sömu sjónarmið koma fram í áliti sveitarstjórnar Mýrdalshrepps í gær.

Landeigendur við Hjörleifshöfða seldu land fyrir nokkrum misserum undir námuna. Er horft til flutninga til Evrópu og jafnvel Norður-Ameríku til sementsframleiðslu. Í umhverfismatsskýrslu frá Eflu er gert ráð fyrir 107 ferðum vöruflutningabíla frá Hjörleifshöfða á sólarhring.

Einar Freyr Elínarson, nýráðinn sveitarstjóri í Mýrdalshreppi, segir að sveitarfélagið leggist ekki gegn námuvinnslunni heldur gegn flutningunum.

„Ég árétta að sveitarfélagið hefur ekki gefið út framkvæmdaleyfi vegna námuvinnslunnar.“

Sveitarstjórn mælist til að fyrirkomulag starfseminnar verði endurskoðað og vikrinum skipað af ströndinni sunnan við námusvæðið. Sveitarfélagið lýsir sig reiðubúið til viðræðna um hafnargerð.