Álf­heiður Inga­dóttir, fyrr­verandi heil­brigðis­ráð­herra, er ó­sátt við um­mæli sem voru látin falla um hana í út­varps­þætti á Bylgjunni fyrr í vikunni en hún segir Jón Gunnars­son, þing­mann Sjálf­stæðis­flokksins hafa logið þar upp á sig og aðra.

Um­mælin voru látin falla þegar verið var að ræða ó­eirðirnar í Banda­ríkjunum þar sem stuðnings­menn Trumps brutu sér leið inn í þing­húsið í Was­hington, D.C., en nokkrir hafa líkt ó­eirðunum við það þegar hópur fólks safnaðist saman fyrir utan Al­þingi til að mót­mæla eftir hrunið árið 2008.

Nokkrir hafa haldið því fram að um sambærilega atburði sé að ræða.

„Þá eru liðnir 2 sólar­hringar síðan Heimir og Gulli á Bylgjunni hleyptu Jóni Gunnars­syni að hljóð­nemanum til að ljúga upp á mig og aðra með 12 ára gömlu slúðri og á­sökunum vegna þátt­töku í bús­á­halda­byltingunni,“ segir Álf­heiður í færslu á Face­book um málið.

Vísar málinu alfarið á bug

Að sögn Álf­heiðar hefur henni ekki verið boðið að svara Jóni og á­sökunum hans. „Furðu­legt nokk, því Jón nefndi nafn mitt a.m.k. þrisvar, fjórum sinnum og tengdi við lög­brot,“ segir hún enn fremur.

„Á dauða mínum átti ég von en ekki því að vera líkt við Trump, og mér finnst sví­virði­legt að jafna vopnuðum skríl við al­menn mót­mæli við ríkis­stjórn Geirs H.Haarde 2008-2009,“ segir hún. „En það er líka skrítið að þessir þátta­stjórn­endur skuli ekki skammast til að leita eftir við­brögðum mínum.“

Hún greinir enn fremur frá því að hún hafi sent þátta­stjórn­endum yfir­lýsingu frá lög­reglu­stjóranum á höfuð­borgar­svæðinu frá því í febrúar árið 2012 og óskaði að til hennar væri vísað. „En þar kemur fram að nafn mitt hafi hvergi komið fram í mála­skrá lög­reglu í tengslum við þessa at­burði.“

„Þannig vísa ég lygum Jóns og fé­laga enn og aftur á bug. – Ekki það að ég haldi að það skipti þá máli nú fremur en fyrr.“