Hægri­flokkurinn, Kristi­legir demó­kratar og Frjáls­lyndi flokkurinn hafa myndað ríkis­stjórn í Sví­þjóð, rétt rúmum mánuði eftir þing­kosningar þar í landi. Ulf Kristers­son, for­maður Hægri­flokksins mun verða næsti for­sætis­ráð­herra Svíþjóðar, ef þing­for­seti veitir honum um­boð og þingið sam­þykkir hann.

Ríkis­stjórnin er minni­hluta­stjórn, en Sví­þjóðardemó­kratar, flokkurinn sem stendur lengst til hægri í sænskum stjórn­málum, mun verja ríkis­stjórnina gegn van­trausti án þess að eiga full­trúa í ríkis­stjórninni.

„Við höfum náð sam­komu­lagi um samning sem við teljum að sé góður fyrir Sví­þjóð. Sví­þjóð á við al­var­legt vanda­mál að etja. Við höfum glæpi, inn­flytj­enda­mál, orku­stefnuna, um­önnunarraðir, ó­reglu í skólum og á­hyggjur af efna­hag landsins. Allt á meðan við lifum á hættu­legasta tíma fyrir Sví­þjóð síðan í síðari heims­styrj­öldinni“ sagði Ulf Kristers­son á blaða­manna­fundi í morgun þegar greint var frá samningnum. Sænska ríkis­út­varpið greinir frá þessu.

Kristers­son mun ganga á fund með þing­for­seta seinna í dag þar sem hann vonast til þess að fá um­boð sem nýr for­sætis­ráð­herra. Ef svo verður, mun þingið kjósa um það á mánu­daginn og dreifing ráð­herra­stóla kynnt eftir það, ef þingið sam­þykkir.

Að sögn sænska ríkis­út­varpsins er niður­staðan mikill sigur fyrir Sví­þjóðardemó­krata, en áður hafði enginn viljað starfa með þeim. Flokkurinn mun ekki fá ráð­herra í ríkis­stjórninni en skrif­stofur flokksins á sænska þinginu munu verða hjá ríkis­stjórninni.

„Við hefðum viljað sjá meiri­hluta­stjórn sem við værum hluti af. Nú þegar við erum ekki hluti af henni er mikil­vægt fyrir okkur að við fáum efnis­lega pólitíska sátt,“ sagði Jimmi­e Åkes­son, for­maður Sví­þjóðardemó­krata á blaða­manna­fundinum í morgun.

Sví­þjóðardemó­kratar krefjast harðari stefnu gegn inn­flytj­endum og óskaði Åkes­son eftir stefnu­breytingu í þeim málum en hún fælist í tak­mörkuðum réttindum í hælis­ferlinu, styttri tíma­bundin dvalar­leyfi og hertari kröfur um ríkis­borgara­rétt.

Jimmie Åkesson var ánægður með niðurstöður síns flokks eftir þingkosningarnar.
Fréttablaðið/EPA