Flest bendir til þess að Svíþjóðardemókratar séu sigurvegarar sænsku þingkosninganna sem fram fóru um helgina.
Búið er að telja tæplega 95% atkvæðanna og er Jafnaðarmannaflokkurinn sem fyrr stærsti flokkurinn með 30,5% fylgi.
Þar á eftir koma Svíþjóðardemókratar en fylgi flokksins á landsvísu samkvæmt nýjustu tölum er 20,6%. Eru Svíþjóðardemókratar sá flokkur sem bætir mestu fylgi við sig milli kosninga.
Hægriflokkurinn Moderaterna er þriðji stærsti flokkurinn og er fylgi hans 19,1%.
Svíþjóðardemókratar er róttækur hægri flokkur og er formaður hans Jimmie Åkesson. Hefur flokkurinn meðal annars látið til sín taka í innflytjendamálum. Uppgangur flokksins hefur verið mikill á undanförnum árum og hefur hann bætt við sig fylgi í síðustu níu kosningum.
Jimmie sagði í viðtölum við sænska fjölmiðla í gærkvöldi að hægri flokkarnir í sænskum stjórnmálum yrðu væntanlega sigurvegarar þessara kosninga. Allt stefni í breytingar á samsetningu sænsku ríkisstjórnarinnar eftir kosningarnar, en ekki er búist við því að endanlegar niðurstöður liggi fyrir fyrr en síðar í þessari viku.
Jafnaðarmannaflokkurinn er nú í minnihlutastjórn í Svíþjóð með stuðningi þriggja annarra flokka.