Svíþjóð mun veita Úkraínu aukna efnahagsaðstoð og herbúnað, þar á meðal flugskeyti, riffla og skriðdrekavopn. Þetta segja sænsku ráðherrarnir Mikael Damberg og Peter Hultqvist.
Í tillögunni sem var lögð fram fyrir sænska þingið kemur fram að úthlutað fé til Úkraínu muni aukast um 102 milljónir dollara árið 2022.
„Í samstöðu með Úkraínu, og sem hluti af alþjóðlegum viðbrögðum við innrás Rússa, telur ríkisstjórnin áframhaldandi þörf á að styðja Úkraínu,“ segir í tilkynningu frá sænska fjármálaráðuneytinu.
Sænska ríkisstjórnin tilkynnti í febrúar að fjöldi hergagna yrðu send til Úkraínu til þess að aðstoða landið gegn innrás Rússa.
Íslensk stjórnvöld hafa greitt rúmlega 125 milljónir fyrir flutning á búnaði til Úkraínu, aðallega skotfæri.