Margt bendir til þess að Finn­land og Sví­þjóð muni sækja sam­eigin­lega um aðild að At­lants­hafs­banda­laginu um miðjan næsta mánuð. Finnska dag­blaðið Il­ta­lehti heldur því fram að leið­togar ríkjanna muni mögu­lega hittast í vikunni 16. til 20. maí og til­kynna um um­sókn.

Breska ríkis­út­varpið, BBC, greinir frá þessu og vísar í frétt sænska Afton­bladet þar sem fram kemur að Banda­ríkin og Bret­land hafi heitið því að tryggja öryggi ríkjanna meðan á um­sóknar­ferlinu stendur.

Bæði Sví­þjóð og Finn­land hafa í gegnum árin til­einkað sér hlut­leysis­stefnu en lands­lagið hefur breyst undan­farnar vikur í kjöl­far inn­rásar Rússa í Úkraínu.

Rússar hafa hótað því að bregðast hart við ef Finn­land og Sví­þjóð sækja um aðild að NATO. Sanna Marin, for­sætis­ráð­herra Finn­lands, sagði á dögunum að finnsk yfir­völd þyrftu að vera við öllu búin frá Rússum.

For­seti Finn­lands, Sauli Niini­sto, er á leið til Sví­þjóðar um miðjan maí­mánuð og segir sænska blaðið Expres­sen að til­kynningar um aðildar­um­sókn gæti verið að vænta þá.

Heimildar­menn úr röðum banda­rískra yfir­valda segja við Afton­bladet að litið verði á Sví­þjóð og Finn­land sem full­gilda með­limi NATO meðan á um­sóknar­ferlinu stendur.