Margt bendir til þess að Finnland og Svíþjóð muni sækja sameiginlega um aðild að Atlantshafsbandalaginu um miðjan næsta mánuð. Finnska dagblaðið Iltalehti heldur því fram að leiðtogar ríkjanna muni mögulega hittast í vikunni 16. til 20. maí og tilkynna um umsókn.
Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá þessu og vísar í frétt sænska Aftonbladet þar sem fram kemur að Bandaríkin og Bretland hafi heitið því að tryggja öryggi ríkjanna meðan á umsóknarferlinu stendur.
Bæði Svíþjóð og Finnland hafa í gegnum árin tileinkað sér hlutleysisstefnu en landslagið hefur breyst undanfarnar vikur í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
Rússar hafa hótað því að bregðast hart við ef Finnland og Svíþjóð sækja um aðild að NATO. Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, sagði á dögunum að finnsk yfirvöld þyrftu að vera við öllu búin frá Rússum.
Forseti Finnlands, Sauli Niinisto, er á leið til Svíþjóðar um miðjan maímánuð og segir sænska blaðið Expressen að tilkynningar um aðildarumsókn gæti verið að vænta þá.
Heimildarmenn úr röðum bandarískra yfirvalda segja við Aftonbladet að litið verði á Svíþjóð og Finnland sem fullgilda meðlimi NATO meðan á umsóknarferlinu stendur.