Svíþjóð og Finnland munu senda inn formlega umsókn að aðild í Atlantshafsbandalaginu (NATÓ) í dag. Magdalena Andersson forsætisráðherra Svíþjóðar greindi frá þessu en hún segir umsóknir beggja landa verði skilað inn samtímis.

„Finnland og Svíþjóð hafa samþykkt að fara í gegnum allt ferlið hönd í hönd og á morgun munum við senda umsóknirnar samtímis,“ sagði Andersson á blaðamannafundi í gær með Sauli Niinistö forseta Finnlands.

Umsóknirnar marka stórfelldar breytingar í samsetningu Evrópu. Andersson segir að aðild landanna að NATÓ muni styrkja öryggismál landanna og Norður Evrópu í heild.

Ríkisstjórn Bandaríkjanna sendi einnig frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, myndi fara á fund með Niinistö og Andersson til að ræða inngöngu þeirra í bandalagið.

NATÓ-umsóknin kemur í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Niinistö segir árásina hafa breytt öllu.

Til að fá aðild þurfa löndin að fá samþykkt frá öllum þrjátíu aðildarlöndum NATÓ. Tyrkland er eitt þeirra en yfirvöld þar í landi hafa sagt að þau muni ekki styðja umsókn landanna tveggja. Til grundvallar því nefna yfirvöld Tyrklands meðal annars að löndin hafi beitt refsiaðgerðum gegn Tyrklandi vegna aðkomu þess í Sýrlandi.