Sviss sem hefur verið hlutlaust í hvers kyns átökum milli landa til þessa mun taka upp sömu viðskiptaþvinganir gegn Rússum og þær sem þjóðir Evrópusambandsins hafi tilkynnt um. Þetta kemur fram á vef Danmarks Radio.

Fjármálaráðherra Sviss, Ueli Maurer, segir að engar undantekningar verði í aðgerðum Svisslendinga frá aðgerðum ESB sem meðal annars miða að orkumálum, samgöngum og að fjármálamarkaðinum í Rússlandi.

Danmarks Radio minnir í frétt sinni á að Sviss var hlutlaust ríki í báðum heimsstyrjöldunum sem háðar voru á tuttugustu öldinni og hafi haft mjög harða hlutleysisstefnu sem þýtt hafi að landið tekur ekki afstöðu með deiluaðilum sem eiga í átökum.