Yfirvöld í Sviss hafa neitað að samþykkja bóluefni Oxford-háskóla og AstaZeneca við COVID-19. Þau segja ekki nægar upplýsingar liggja fyrir um virkni þess. Þetta er fyrsta ríkið á meginlandi Evrópu sem hafnað hefur að veita bóluefninu markaðsleyfi.
Heilbrigðiseftirlit Sviss telur að frekari rannsókna sé þörf á gagnsemi bóluefnisins en þessi ákvörðun þykir koma á óvart samkvæmt frétt Financial Times. Áður hafði lyfjaeftirlitsstofnun Evrópusambandsins heimilað notkun þess en Sviss er ekki hluti af sambandinu. Yfirvöld í Sviss vilja bíða eftir niðurstöðum úr tveimur klínískum rannsóknum á bóluefninu sem nú standa yfir í Norður- og Suður-Ameríku.
Þrátt fyrir að ESB hafi leyft notkun bóluefnis Oxford-háskóla og AstraZeneca hafa Frakkar, Þjóðverjar, Ítalir, Svíar og Pólverjar ákveðið að aðeins fólki yngra en 65 ára verði bólusett með því. Belgar ætla ekki að bólusetja neinn yfir 55 ára aldri með því.
Svissnesk yfirvöld hafa samþykkt notkun á bóluefnum BioNTech og Pfizer sem og þess sem framleitt er af Moderna. Þau tilkynntu í dag að þau hefðu fest kaup á alls 13,5 milljónum skammta af bóluefni Moderna, sem von er á í sumar.