Stjórn félags svissneskra svínaræktenda hefur ákveðið að banna notkun eCG eða PMSG í svínarækt. Tillagan var samþykkt í dag en fjallað var um hana í sjónvarpsstöðinni SRF1 í Sviss fyrir helgi.

Um er að ræða hormón sem unnið er úr blóði fylfullra hryssa sem notað er til að framleiða frjósemislyf fyrir önnur dýr, einna helst svín. Ísteka kaupir blóðið frá samstarfsbændum sínum og vinnur úr því hormónið sem er svo selt til útlanda.

Blóðmerahald er umdeildur iðnaður sem hefur verið mikið til umræðu síðustu mánuði eftir að svissnesku dýraverndarsamtökin Animal Welfare Foundation birtu myndband frá blóðtöku á íslenskum sveitabæjum. Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi í von um að banna blóðmerahald og starfshópur landbúnaðarráðherra hefur blóðtöku til skoðunar.

Bændur í Sviss hafa aðeins verslað við Ísland síðustu ár, þ.e.við Ísteka, og munu hætta að eiga viðskipti við fyrirtækið eftir þessa breytingu.

Meinrad Pfister, formaður félags Svínabænda í Sviss, segir í viðtali við SR1 ríkissjónvarp Sviss, að félagið hafi ákveðið að bregðast við eftir að fregnir bárust um dýraníð á íslenskum sveitabæjum.

Nokkur fyrirtæki í Sviss versluðu við Argentínu og Úrúgvæ áður en fregnir bárust um hræðilega meðferð á blóðmerum þarlendis árið 2015, þá færðu þau sín viðskipti til Íslands.

Pfister segir að fulltrúar Ísteka hafi fullvissað sig um að dæmin sem sáust í myndbandi AWF hafi verið einstök tilvik og ekki lýsandi fyrir allan iðnaðinn. Þrátt fyrir það ákvað stjórn bændafélagsins að taka málið fyrir og ákvað að framtíð svínaræktunar í Sviss yrði án notkunar hormónsins.