Söngvarinn Aaron Ísak Berry hefur verið sviptur sigurtitli sínum í Söngkeppni framhaldsskólanna sem hann hlaut árið 2019. Er það gert vegna sakfellingardóms á hendur Aarons sem féll nýlega.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sambandi íslenskra Framhaldsskólanema.

Framkvæmdastjórn sambandsins tók ákvöðrunina í kjölfar dómsins og er afstaða sambandsins gegn kynferðisofbeldi mjög skýr, sér í lagi gagnvart börnum, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Nafn Aarons verður fjarlægt af lista sigurvegara á vefsíðu sambandsins og verður hann ekki talinn hluti af hópi sigurvegara keppninnar.

Braut á þremur drengjum

DV greindi frá máli Aarons fyrr í mánuðinum en þar segir að hann hafi verið sakaður um kynferðisbrot gegn 12 ára drengjum.

Aaron er fæddur árið 1998 og var sakfelldur nú á dögunum fyrir kynferðisbrot gegn drengjunum þremur og fyrir að hafa haft barnaníðsefni í fórum sínum. Í dómnum kemur fram að Aaron sé talsvert á eftir í þroska og því hafi verið ákveðið að hann yrði í eftirliti hjá réttargeðdeild frekar en að afplána dóm í fangelsi, að því er fram kemur á vef Vísis.

Aaron tjáði sig einnig sjálfur um málið á samfélagsmiðlum sínum en þar segist hann hvorki siðblindur né haldinn barnagirnd. Hann myndi aldrei gera barni mein vísvitandi.

Að sögn Aarons tæki hann þó ábyrgð á því sem hann hefði gert rangt, „en ef ákæran væri í heild sinni sönn ætti ég mjög erfitt með að lifa með sjálfum mér. Ég biðst afsökunnar til allra sem ég hef sært á nokkurn hátt.“

Samband íslenskra Framhaldsskóla hvetur þolendur kynferðisofbeldis að leita sér hjálpar með því að hringja í síma 112, nýta netspjall Rauða krossins á 1717.is, eða leita til neyðarmóttöku Landspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis sem er opin allan sólarhringinn. Hægt er að hringja í síma 543-1000.

Einnig hvetur SÍF alla sem verða varir við óviðeigandi og ólöglegt efni á netinu sem varðar börn eða er beint gegn börnum, til að tilkynna það með ábendingarlínu Barnaheilla https://www.barnaheill.is/is/abendingalina.