Landlæknir hefur svipt háls-, nef- og eyrnalækni lækningaleyfi eftir að upp komst um ónauðsynlegar skurðaðgerðir sem hann framkvæmdi, meðal annars á börnum. Þetta herma heimildir fréttastofu Stöðvar 2 og greint var frá á Vísi.
Þar kemur fram að upp hafi komist um framferði læknisins í fyrra eftir að ábending barst um starfshætti hans en hann starfaði á Handlæknastöðinni í Glæsibæ. Þá hófst viðamikil rannsókn landlæknisembættisins á lækninum. Grunur lék á að hann styddist ekki við viðurkenndar aðferðir í læknisfræði í aðgerðum og framkvæmdi ónauðsynlegar aðgerðir á fullorðnum og börnum samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2.
Landlæknir skoðaði aðgerðir læknisins á nokkurra mánaða tímabili, sem hlupu á tugum. Embættið hafi komist að þeirri niðurstöðu að margrar þeirra hafi verið óþarfar eða að þeim aðferðum sem beitt var hafi verið ábótavant.
Rætt er við Ástu Valdimarsdóttur, ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytisins, sem segir að úrskurður í máli læknisins verði birtur á næstu dögum en fram að því muni ráðuneytið ekki tjá sig um málið. Embætti landlæknis vildi ekki veita svör fyrr en úrskurðurinn væri birtur.