„Ég mun aldrei taka frelsi mínu sem sjálfsögðum hlut. Ástæða þess að ég skil hvað felst í orðinu frelsi er sú að ég eyddi tólf árum af barnæsku minni án þess,“ segir David Freeman, 47 ára karlmaður sem fæddist í Ástralíu en hefur búið á Íslandi í um tvo áratugi.
Saga Davids er um margt óvenjuleg enda ólst hann upp í alræmdum sértrúarsöfnuði skammt frá borginni Melbourne, söfnuði sem komst í heimsfréttirnar árið 1987 þegar lögreglumenn, gráir fyrir járnum, ruddust til inngöngu og frelsuðu börn sem höfðu mátt þola skelfilega meðferð. David var eitt þessara barna og hefur líf hans litast af barnæskunni sem hann aldrei fékk að njóta. David hefur aldrei tjáð sig opinberlega um árin í sértrúarsöfnuðinum en segir að nú sé tíminn til þess kominn. Líf hans hefur ekki verið neinn dans á rósum á undanförnum árum og hefur hann glímt við kvíða og þunglyndi sem hann rekur til áranna í söfnuðinum.
Kynntist móður sinni aftur
Söfnuðurinn sem David tilheyrði frá tveggja ára aldri þar til hann var 14 ára gekk undir nafninu Fjölskyldan (e. The Family). Leiðtogi hans var Anne Hamilton-Byrne sem sagðist vera sjálfur frelsarinn, Jesús Kristur, endurfæddur og börnin í söfnuðinum áttu að vera tilbúin til að taka við völdum í heiminum vegna yfirvofandi dómsdags. Fyrrverandi meðlimir í söfnuðinum hafa stigið fram í bókum og heimildarmyndum og lýst því ofbeldi sem tíðkaðist í söfnuðinum. Börn voru svelt, barin, lokuð inni dögum saman og eru dæmi um að eldri börnum hafi verið gefnir stórir skammtar af ofskynjunarlyfinu LSD.
Anne var jógakennari, gædd miklum persónutöfrum og snemma á sjöunda áratug síðustu aldar var hún farin að kenna miðaldra konum í úthverfi Melbourne. Anne náði vel til margra þessara kvenna og til að gera langa sögu stutta má segja að upp frá þessu hafi sértrúarsöfnuðurinn orðið til.
David er fæddur árið 1973 og var hann tveggja ára þegar Anne ættleiddi hann. Aðspurður segist hann ekki vera með það á hreinu hvernig hann komst í hendur hennar. „Ég er löngu hættur að pæla í því hvort ég hafi verið tekinn eða gefinn en það eru meiri líkur á að fólkið í söfnuðinum hafi sannfært móður mína um að láta mig af hendi,“ segir David á nánast lýtalausri íslensku.

Tveimur árum eftir að hann var frelsaður komst hann í kynni við móður sína á nýjan leik og eru þau í ágætum samskiptum í dag. „Hún bað mig afsökunar á þessu. Hún hefur aldrei þurft að segja neitt meira og ég hef aldrei spurt hana frekar því ég veit að þetta er líka sárt fyrir hana. Þó hún hafi látið mig af hendi þá vil ég ekki að henni líði illa yfir því. Hún er gömul kona og á skilið að líða vel. Það eru góðar líkur á að henni líði illa yfir þessu og ég ætla ekki að bæta á það.“
Minningin er botnlaus sorg
Anne ættleiddi fjölda barna á árunum 1968 til 1975 og voru sum þeirra börn annarra meðlima í söfnuðinum sem ýmist voru kallaðir frænkur eða frændur. Anne taldi börnunum trú um að hún væri líffræðileg móðir þeirra. David var yngsti strákurinn í söfnuðinum og næstyngsta barnið. Þegar hann er spurður hver hans fyrsta minning sé segir hann eftir smá umhugsun:
„Að gráta. Ég gerði ekkert annað. Stundum grét maður svo mikið að líkaminn var hættur að framleiða tár. Samt hélt maður áfram og þá leið manni eins og augun væru að brenna. Minningin er botnlaus sorg, ótti og vonleysi. Þetta voru 12 ár sem er heil eilífð í lífi barns.“

Heimili sértrúarsafnaðarins var kallað Kai Lama og var það staðsett við Lake Eildon í Viktoríufylki. Staðurinn var afskekktur og úr alfaraleið og gátu safnaðarmeðlimir því verið í friði fyrir utanaðkomandi áreiti. Anne HamiltonByrne var ekki með fasta búsetu á staðnum og því voru börnin höfð í umsjón fylgjenda hennar.
Stal hundamat og kattamat
David rifjar upp að hann hafi þjáðst af astma sem barn og fékk hann enga meðhöndlun við honum fyrr en hann var frelsaður árið 1987. „Á næturna kom það fyrir að ég stóð á öndinni og ég man að eina nóttina fór það mjög í taugarnar á einni konunni sem átti að gæta okkar. Hún reif mig upp, fór með mig út í kofa sem notaður var til að geyma garðverkfæri og sagði að ég þyrfti að sofa þar. Kofinn var langt frá húsinu, myrkrið var algjört og ég man hversu hræddur ég var. Ég skildi ekki af hverju það var verið að refsa mér. Þetta gerðist oftar en einu sinni.“
Börnin voru einnig svelt og rifjar David upp að það eina sem var á boðstólnum öll þessi ár hafi verið ávextir og grænmeti. „Ég neyddist til að stela mat sem var ætlaður fyrir gæludýrin. Kattamat, hundamat og myglað brauð sem var ætlað fuglunum. Ég átti það til að gramsa í ruslinu eftir einhverju ætilegu. Það má segja að dýrin hafi fengið betri meðferð en við börnin.“

Hann rifjar svo upp að eitt sinn hafi hann verið læstur inni á baðherbergi í heila sex daga. Þetta var ekki löngu áður en lögreglan réðist til inngöngu. „Ég fékk ekki að borða í þrjá daga. Það var mjög algeng refsing að gefa okkur ekkert að borða. Eftir kannski tvo daga var maður orðinn svo slappur og orkulaus að maður var farinn að æla magasýrum.“
Vannæringin í barnæsku hafði sín áhrif og þurfti David og yngsta stúlkan á staðnum að fara í meðferð á sjúkrahúsi þar sem þau fengu vaxtarhormón. „Ég var illa farinn, ég var vannærður og allt of lítill miðað við aldur. Ég var 14 ára en leit út fyrir að vera 9 ára.“
Föstudagurinn 14. ágúst 1987
David segir að börnin hafi ekki talað mikið saman um hlutina sín á milli, hugsanlega hafi eldri börnin gert það. Sjálfur var David mikill bókaormur og átti hann það til að lesa heilu bækurnar með vasaljós undir sæng. Smátt og smátt komst hann að því að heimurinn þarna úti var aðeins öðruvísi en hann átti að venjast.
Föstudagurinn 14. ágúst 1987 rennur David seint úr minni, en þann dag ruddust vopnaðir lögreglumenn inn í höfuðstöðvar söfnuðarins og frelsuðu börnin. „Það var dagur frelsis,“ segir hann og rifjar upp að hann hafi hvorki fyrr né síðar séð jafn mikið af lögreglumönnum á sama stað. Hann var í jóga ásamt öðrum meðlimum safnaðarins þegar lögregla ruddist inn. „Í fyrstu áttuðum við okkur ekki á því að það væri verið að hjálpa okkur. Um leið og ég sá lögguna varð ég smá hræddur enda allir vopnaðir, þetta var enginn smá dagur í lífi mínu.“
Erfitt að borða venjulegan mat
Eftir að David var frelsaður tóku við fjögur ár þar sem hann var í umsjá ríkisins á unglingaheimili. „Það var ágæt reynsla en auðvitað var þetta upp og niður. Ég kynntist krökkum sem áttu erfiða fortíð,“ segir hann og bætir við að hann hafi gengið í almenningsskóla í Melbourne með jafnöldrum sínum. Mjög mikil áhersla var lögð á menntun innan sértrúarsafnaðarins og segir David að það hafi verið eins og að fara þrjú til fjögur ár aftur í tímann þegar hann fór í skóla. „Ég vissi þetta allt.“

Þó hann hafi verið frelsinu feginn þurfti hann að aðlagast hinu hefðbundna lífi. Hann rifjar upp að hann átti erfitt með að borða venjulegan mat eftir að hann var frelsaður og átti hann það til að kasta honum upp. „Líkaminn var ekki vanur að melta kjöt og mjólkurvörur til dæmis.“
David rifjar upp að mikið hafi verið fjallað um málið í áströlskum fjölmiðlum eftir rassíu lögreglunnar. Fjallað var um málið dag eftir dag í sjónvarpinu. Athyglin og umtalið fór illa í David og þegar hann var fimmtán ára ákvað hann að gera samning við sjálfan sig. „Ég gerði samning um að ég myndi aldrei segja annarri manneskju frá æskunni minni. Ég stóð við það þangað til ég varð fertugur og bjó til aðra fortíð. Bara til að forðast þessa athygli, ég vildi bara fara í gegnum lífið undir ratsjá.“
Kynntist íslenskri konu í Ísrael
Líf Davids tók svo aftur stakkaskiptum fljótlega eftir að hann varð tvítugur. Þá ákvað hann að fara í ferðalag um heiminn. „Þá fór ég í fyrsta skipti til útlanda. Ég fór til Indlands, Nepal og Ísraels þar sem ég kynntist íslenskri konu.“
Þeim varð vel til vina en úr varð að hún fór aftur til Íslands og David aftur til Ástralíu. Þau héldu sambandi eftir að heim var komið og tveimur árum síðar, árið 1998, ákvað David að kíkja í heimsókn. Eitt leiddi af öðru og ekki leið á löngu þar til hún varð ólétt.
„Að eignast börn var nákvæmlega það sem ég þurfti til að koma mér aftur í jafnvægi. Ég reyndi að laga allt sem hafði farið úrskeiðis í minni barnæsku. Ég var alveg harðákveðinn í að þau þyrftu aldrei að þjást að óþörfu. Ef þau grétu þá tók ég þau upp og ég var skammaður fyrir það. Ég gat ekki hlustað á börnin mín gráta þegar ég vissi að ég gæti gert eitthvað til að hjálpa.“

Fortíðin bankaði á dyrnar
David settist að á Íslandi og hefur hann búið hér á landi nær sleitulaust frá árinu 1998. Hann á þrjú börn með tveimur konum; 20 ára stúlku og tvo drengi, 19 ára og 13 ára.
Þegar hann var orðinn fertugur má segja að fortíðin hafi bankað á dyrnar af miklum þunga og hefur David glímt við andlega erfiðleika undanfarin misseri. Hann gerði þau stóru mistök að prófa fíkniefni fyrir um tíu árum síðan. Þá var hann staddur í Ástralíu ásamt fjölskyldu sinni um skamma hríð þar sem markmiðið var að vinna og safna peningum. Þau fóru út árið 2007 en sneru alfarið aftur heim til Íslands árið 2012. Vinnufélagi hans var í neyslu og sannfærði hann David um að hann þyrfti að prófa það sama og hann.
„Ég var nógu heimskur til að þiggja það. Þetta var metamfetamín sem er örugglega eitt það hættulegasta sem hægt er að taka og eitt það mest ávanabindanndi. Í kjölfarið á því byrjaði ég að glíma við ofsakvíða, engan venjulegan kvíða. Ég gat ekki stjórnað líkama mínum, ég skalf svo mikið, og gat ekki einu sinni borgað fyrir hluti úti í búð. Þá byrjaði þetta allt saman,“ segir David sem hefur verið að vinna sig út úr þessum vanda síðustu ár. „Þetta hefur verið erfiður tími, síðustu 5-6 ár. Ég missti boltann gjörsamlega þegar ég fór í neyslu. Í neyslu er maður eingöngu upptekinn af sjálfum sér. Ég er ennþá að borga fyrir það í dag og mun trúlega þurfa að borga fyrir það allt mitt líf. Hægt og rólega eru hlutirnir að komast í samt horf,“ segir hann og bætir við að erfitt sé að koma fólki í skilning um þá hluti sem hann upplifði sem barn.
„Það eru ekki margir með reynslu af svona hlutum og ekki margir með skilning. Jafnvel ekki sálfræðingar. Hér á Íslandi er ég löngu búinn að gefast upp á því að tala við sálfræðinga,“ segir hann. Hann telur sig heppinn að vera á lífi. „Ég áttaði mig á því um daginn. Margir af þeim sem ég ólst upp með hafa svipt sig lífi. Þetta var mjög almennt, krakkar fóru út í bullandi neyslu og sáu ekki framtíð í neinu. Það voru margir fullorðnir sem gerðu það líka. Þessi kona er með mikið blóð á höndunum, það hefur ekki verið talað nógu mikið um það.“
Vildi að sjálfsvígið liti út sem slys
Árið 2012 var David á mjög slæmum stað andlega vegna ofsakvíða og þunglyndis og um tíma sá hann aðeins þá lausn að svipta sig lífi. „Ég vildi deyja en gat ekki hugsað mér að börnin mín myndu minnast föður síns fyrir sjálfsvíg. Ég varð því að gera þetta þannig eins og um slys væri að ræða og ætlaði mér að keyra á fullri ferð á tré. Sem betur fer lét ég ekki verða af þessu en þegar kvíðinn tók völdin þá veitti þessi hugsun um tréð mér ákveðinn innri frið.“
Minningin er botnlaus sorg, ótti og vonleysi. Þetta voru 12 ár sem er heil eilífð í lífi barns.
David dregur ekki fjöður yfir það að hann einn ber ábyrgð á sínum ákvörðunum en hann segir að barnæskan hafi mótað hann mikið. „Ég fékk enga kennslu í mannlegum samskiptum. Við vorum einangruð, fengum aldrei að eignast vini og ég var 14 ára þegar ég lærði að hjóla. Ég held að þetta hafi truflað mig rosalega félagslega. Mér finnst ég alltaf vera hálftýndur innan um fólk og mér líður alls ekki vel í hóp, þá er ég einmana en mér líður vel þegar ég er einn. Félagslega á ég mjög erfitt og það er mitt stærsta vandamál,“ segir David sem segir að með neyslu áfengis og eiturlyfja losni um þessar hömlur.
Vont að byrgja þetta inni
David hefur ekki áður farið nákvæmlega í saumana á sinni sögu og hann hefur meira að segja haldið sínum nánustu frá henni. „Þetta er eitthvað sem ég þarf að koma frá mér. Það er ógeðslega vont að byrgja þetta inni. Ég sagði ekki barnsmæðrum mínum frá þessu, þær heyrðu mína sögu frá öðrum. Ég faldi þetta,“ segir hann.
Aðspurður hvort hann hafi verið í samskiptum við aðra einstaklinga sem ólust upp með honum segir hann að lítið hafi verið um það. „Það er engin tilviljun að ég er nánast eins langt frá Melbourne og hægt er. Mér finnst óþægilegt að tala við fólkið sem ólst upp með mér. Það er fyrst núna sem ég er byrjaður að hugsa um að deila þessu,“ segir David sem vill leggja áherslu á lífið eftir sértrúarsöfnuðinn. Mikið hafi verið fjallað um gjörðir Anne Hamilton-Byrne en of lítið um líf þeirra sem þurftu að þola ofbeldi hennar og áhrif þess.
Anne lést í hárri elli árið 2019, 98 ára að aldri, en hún glímdi við Alzheimers-sjúkdóminn síðustu æviár sín. Anne þurfti aldrei að sitja í fangelsi vegna gjörða sinna en var dæmd til greiðslu sektar fyrir að falsa ættleiðingarskjöl.

Þakklátur fyrir Ísland
David segir að áströlsk yfirvöld megi eiga það að vel var haldið utan um hópinn eftir rassíu lögreglunnar árið 1987. Lögreglumenn, félagsstarfsmenn og jafnvel fjölmiðlafólk hafi verið í samskiptum þó rúm 30 ár séu liðin.
„Ég get alls ekki kvartað undan því, miðað við að þetta var árið 1987.“ Hann kveðst þó vera einstaklega þakklátur fyrir að hafa sest að á Íslandi og getað kallað Ísland heimili sitt í um tuttugu ár. „Landið hefur hjálpað mér að setja fortíðina í baksýnisspegilinn, þar sem hún á heima, en þegar ég hef þurft á aðstoð að halda hef ég aldrei komið að lokuðum dyrum neins staðar.“
David ver frítíma sínum í að teikna og mála en á daginn vinnur hann í byggingavinnu á höfuðborgarsvæðinu. „Ég hef mikinn áhuga á myndlist og hún hefur í raun bjargað minni andlegu heilsu. Ég er líka algjört tónlistarnörd og elska íslenska tónlist.“
Einn á aðfangadag
Aðspurður um framtíðaráform segir David að hann ætli að halda áfram að sinna myndlistinni og treysta sambandið við börnin sín.
„Ef þú ert í neyslu loka allir hurðinni á þig sem er mjög skiljanlegt. Síðustu tvö jól hef ég verið einn heima. Á aðfangadag keyrði ég gjafir til barnanna minna og fór svo bara einn heim. Það var sárt í nokkra klukkutíma. Það var enginn sem bauð mér og ég skil það. Þegar ég var í neyslu gerði ég ekkert fyrir börnin mín, borgaði ekkert og hugsaði bara um sjálfan mig,“ segir hann en bætir við að hann hafi fengið öll börnin sín í mat í síðustu viku. Það hafi verið góð upplifun.
David segir að lokum að hans saga sýni hversu mikilvæg mótunarárin eru í lífi barna.
„Ég er kannski ekki í neinni stöðu til að gefa neinum ráð. En ef ég ætti að gera það væru skilaboðin þessi: Knúsaðu börnin þín á hverjum degi, ekki leyfa þeim að fara að sofa grátandi. Segðu börnunum þínum að þau séu að standa sig vel og að þú sért stoltur af þeim. Þetta er eitthvað sem ég fékk ekki sem barn. Ég var 26 ára þegar ég fann fyrst fyrir ást í garð einhvers, ég þurfti að eignast barn til að kynnast þeirri tilfinningu.“