"Ég held að það hafi komið mér mest á óvart hvað það virðist vera mikið um þetta," segir Erna Bjarnadóttir hagfræðingur á Fréttavaktinni á Hringbraut um rangt útfylltar tollskýrslur vegna matvælainnflutnings. Röng skráning verður til þess að lögbundnir tollar eru ekki greiddir í stórum stíl. Tollasvindl og undanskot frá opinberum gjöldum bitnar ekki síst á samkeppnisaðulum sem fara að lögum, bendir Erna á.

„Og þegar það er hrópandi munur jafnvel svo skiptir hundruðum tonna á þessu þá er augljóslega einhvers staðar haft rangt við,“

Hagtölum ekki treystandi

„Við sannreyndum þetta í þeim rannsóknum sem ég hef komið að, til dæmis með því að bera saman magn á tilteknum tollskrárnúmerum sem flutt er út annars vegar frá Evrópusambandinu og hins vegar hvað kemur inn til Íslands,“ segir Erna og vegna niðurstaðnanna sé illa hægt að treysta opinberum hagtölum.

Erna sem áður var hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands til 20 ára en starfar nú sem verkefnastjóri á rekstrarsviði Mjólkursamsölunnar, vill meina að einbeittur brota vilji sé að baki.

„Það kemur auðvitað engin önnur ástæða til greina því að í sumum tilfellum er um að ræða vöru sem ýmsir tollar og önnur gjöld eru lögð á, það er eftir einhverju að slægjast að fara á svig við reglur,“ svarar Erna aðspurð hvort menn skrái ranglega til að hagnast.

Sigmundur Ernir ræddi við Ernu á Fréttavaktinni
Mynd/Hringbraut

Hófst með skoðun á rifnum osti

Mjólkursamsalan leitaði til Ernu fyrir nokkru til að skoða innflutning tiltekins fyrirtækis á rifnum osti sem MS taldi að væri mögulega rangt flokkuð og þá ekki sem ostur.

Erna fékk staðfestingu frá starfssmönnum í Brussel að vöruna ætti að tollflokka sem ost en farið er eftir alþjóðlegu kerfi um Tollskrá sem ríki eru aðilar að, að sögn Ernu.

„Samkvæmt tollalögum ber innflytjandi og enginn annar ábyrgð á tollflokkuninni,“ upplýsir Erna og að þarna hafi verið upplýst tilvik um ranga skráningu á matvælum.

Vörur sem bera háa tolla

Rannsóknir Ernu fólu í sér að bera saman innflutning til Íslands, árin 2017 til 2019, við útflutning á mörgum tollskrárnúmerum sem varðar vörur eins og kjöt, mjólkurvörur, unnar kjötvörur.

„Og það leiddi alls staðar í ljós að þar var munur og ekki síst í vöruflokkum sem bera háa tolla,“ skýrir Erna og bætir við: „En þetta á ekkert skylt við það hvort að menn vilja hafa tolla eða ekki tolla á vörum til Íslands.“

Viðtalið við Ernu má sjá hér að neðan.