Nokkuð hefur borið á því að undanförnu að eldri borgarar hafi orðið fórnarlömb netsvindls.

Í þessari viku hafa þrjú leitað til Neytendasamtakanna með mjög sambærileg mál. Þeim berst fjárfestingartilboð á netinu og eru sett í samband við „ráðgjafa“ sem „aðstoðar“ þau við þau skref sem þarf að fara í gegnum til að fjárfesta. Allt lítur þetta faglega og lögmætt út. „Ráðgjafinn“ fær síðan yfirráð yfir tölvu þeirra með þeirra samþykki og það næsta sem er vitað er að búið er að tæma bankareikninga.

Tjón þeirra þriggja sem leituðu til Neytendasamtakanna í vikunni er samtals um 20 milljónir króna og tapaði einn einstaklingur 12 milljónum. Samtökunum er kunnugt um að einstaklingur hafi tapað 60 milljónum á svona svindli.

Neytendasamtökin brýna fyrir fólki að treysta ekki í blindni. Jafnframt sé mikilvægt að tilkynna allar svona tilraunir til lögreglu. Einnig er hægt að leita til samtakanna eftir ráðgjöf.