Magnús D. Karlson, er einn þeirra sem tók þátt í Facebook leik á vegum Kjötkompaní á dögunum þar sem þátttakendur geta unnið lúxus steikarkassa. Í nótt fékk Magnús skilaboð þess efnis að hann hefði sigrað í leiknum og honum gert að fylgja leiðbeiningum til að vitja vinningsins. „Þá tók við eitthvert innskráningarferli þar sem ég átti að setja inn hinar ýmsu upplýsingar, til dæmis kortaupplýsinga. Þá áttaði ég mig á því að eitthvað skrítið væri í gangi,“ segir Magnús.

Hann lagði leið sína í verslun Kjötkompanís í morgun þar sem hann hugðist vitja vinningsins en var þar tjáð að óprúttnir aðilar hefðu sent honum skilaboðin, ekki væri enn búið að draga út vinningshafa í leiknum. Magnús sagði í samtali við Fréttablaðið að hann hefði ekki verið sá eini sem fór í verslunina í morgun, fleiri hefðu augljóslega fengið skilaboðin. „Það voru fleiri þarna í sömu erindagjörðum,“ segir hann.

Magnús fékk skilaboðin send í nótt, hann var beðinn um að fylgja leiðbeiningum og setja inn hinar ýmsu persónuupplýsingar og kortanúmer.
Mynd/Aðsend

Hafa borist ábendingar um svik

María Gunnarsdóttir, starfsmaður á skrifstofu Kjötkompanís, segir augljóst að óprúttnir aðilar hafi sent út skilaboðin í nafni fyrirtækisins. „Það lítur út fyrir að einhver hafi stofnað reikning á Facebook og notað bæði nafnið okkar og logó-ið okkar.“

Hún segir að nokkrar ábendingar hafi borist fyrirtækinu í dag en svo virðist vera sem fólk hafi áttað sig á því að um svik hafi verið að ræða. „Flestir höfðu samband til þess að benda okkur á þetta og láta okkur vita að þau hefðu fengið þessi skilaboð. Sem betur fer virðist fólk átta sig á því að það séu einhver svik í gangi,“ segir María.

„Skilaboðin berast fólki um miðja nótt og þá er okkar starfsfólk nú yfirleitt sofandi. Svo er fólk held ég meðvitað um að það sé ekki ætlast til þess að þú gefir upp svona miklar upplýsingar þegar þú vinnur í svona leikjum,“ segir María og bætir við að tölvudeild fyrirtækisins hafi nú þegar hafið vinnu í málinu. „Þessi gervireikningur var strax tilkynntur. Það virðist ekki vera hægt að finna hann lengur og skilaboðin eru horfin.“

Bæði nafn og logo Kjötkompanís var notað á gervireikningi sem sendi út skilaboðin í nafni fyrirtækisins.
Mynd/Aðsend

Algengt hjá fyrirtækjum með stóra fylgjendahópa

Lára Garðarsdóttir hjá Aldeilis auglýsingastofu, segir algengt að fyrirtæki með stóra fylgjendahópa á samfélagsmiðlum verði fyrir barðinu á óprúttnum aðilum líkt og þeim sem herjuðu á Kjötkompaní í nótt. „Það eru fordæmi fyrir því að rekstraraðilar verði fyrir svona, sérstaklega þegar það eru leikir í gangi hjá fyrirtækjum með stóra fylgjendahópa,“ segir hún en Kjötkompaní er með yfir 26 þúsund fylgjendur á Facebook. Yfir ellefu þúsund manns höfðu tekið þátt í leiknum sem um ræðir.

„Í þessu tilviki voru búnar til tvær mismunandi síður og auðkenni fyrirtækisins stolið, svo er haft samband við fólki í einkaskilaboðum eða á meðal kommenta og þannig sóst eftir persónuupplýsingum og jafnvel kortaupplýsingum,“ segir Lára. „Við viljum ítreka fyrir fólki að gefa ekki upp kortaupplýsingar þegar um gjafaleiki er að ræða,“ bætir hún við.