„Þetta var í fyrsta skipti sem við erum með umferðartengda mengun,“ segir Svava S. Steinarsdóttir hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Styrkur svifryks var hár í höfuðborginni í gær og verður trúlega aftur í dag. Þrátt fyrir snjóleysi má heyra ótrúlega marga bíla í umferðinni tæta upp göturnar á glænýjum nagladekkjum.

Ekki eru líkur á úrkomu svo líklegt er að styrkur svifryks fari yfir sólarhringsheilsuverndarmörk sem eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kom fram að á hádegi hefði styrkur svifryks við Grensásveg verið 148 míkrógrömm á rúmmetra sem þýðir mjög slæm loftgæði. Fólk sem er viðkvæmt í öndunarfærunum gat því ekki notið góða veðursins heldur þurfti að halda sig innandyra. „Svo er mikilvægt að leggja bílnum og nota almenningssamgöngur eða annan ferðamáta,“ segir Svava.

Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og ötull talsmaður annarra samgangna en einkabílsins, hafði einmitt tekið eftir slæmum loftgæðum þegar Fréttablaðið náði tali af honum. „Ég labbaði að Hlemmi og aftur til baka heim og ég fann fyrir sárindum í öndunarvegi þó ég sé ekki með astma eða neitt slíkt. Það kemur smá sviði. Og ég hugsaði einmitt: Hvað get ég gert? Á ég að skrifa status á Facebook eða get ég gert eitthvað meir því það er enginn ástæða til að vera á nagladekkjum?“

Gísli bendir á að til eru margar rannsóknir, kanadískar, norskar en einnig íslenskar, sem segi stórar sögur. „Sú kanadíska sagði að ef viðkomandi býr nálægt svifryksgötu þá ertu í meiri hættu á að fá Alzheimer. Íslenska rannsóknin sýndi að svona daga eru úttektir á sprengitöflum miklu hærri.“

Stutt er síðan Yvonne Höller, dósent við Háskólann á Akureyri, skrifaði grein á vefinn vikudagur.‌is sem bar yfirskriftina Er Akureyri að búa til kynslóð fólks sem fær lungnakrabbamein? Þar benti hún á rannsókn sem sýndi að svifryksagnir hefðu fundist í ófæddum börnum þungaðra kvenna. Hún lagði til að nagladekk væru bönnuð á Akureyri.

Gísli Marteinn Baldursson

Gísli tekur undir með Yvonne. „Mér finnst ekkert að því að banna nagladekk. Ef Reykjavík bannar slík dekk þá er ekkert mál að innleiða einhvers konar kerfi enda fáar borgir sem leyfa nagladekk. Þannig að fólki af landsbyggðinni væri kleift að aka inn í borgina án þess að fá sekt. Tregðan yrði að banna nagladekk yfir allt Ísland.

Tíðarfarið hefur breyst og dekkin eru orðin betri og mér finnst engin ástæða til að vera á nagladekkjum. Reykjavíkurborg gæti til dæmis byrjað að banna nagladekk í miðborginni. Það gæti verið gott fyrsta skref, þó gjaldtaka á slík dekk sé augljóst fyrsta skref. Svona getur þetta ekki gengið.“