Allar björgunarsveitir á Suðurlandi og í Árnessýslu voru kallaðar út um klukkan eitt í dag vegna svifvængjamanns sem lenti í vandræðum á Búrfelli í Þjórsárdal og slasaðist. Útkallinu lauk um klukkan þrjú og var konan slasaði flutt á sjúkrahús með þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við mbl.is að konan sé ekki talin í lífshættu en sé talsvert slösuð og grunur sé um beinbrot. Ekki sé vitað hver tildrög slyssins séu.
Töluverður viðbúnaður var vegna útkallsins, auk þyrlu Landhelgisgæslunnar voru einnig kallaðir til sjúkraflutningamenn frá Suðurlandi.
Fréttin hefur verið uppfærð.
