Foreldrar barna við leikskólann Hlíð í Hlíðahverfi eru uggandi og sárir yfir því að engar framkvæmdir séu enn hafnar á húsnæði Stóru-Hlíðar en leikskólinn var tæmdur fyrir ellefu vikum vegna myglu og var foreldrum í byrjun desember tilkynnt að gera ætti við húsnæðið. Frá því hefur barnahópi leikskólans verið komið fyrir á Brákarborg fyrir áramót en nú á Litlu-Hlíð í Eskihlíð og í Safamýri.
Í fréttatilkynningu frá foreldrafélagi og foreldraráði leikskólans er lögð áhersla á að borgaryfirvöld takist á við málið með hraði og af festu.
„Nú er janúar, nýtt ár – en leikskólahúsnæðið hefur ekki enn verið fulltæmt, ellefu vikum eftir að leikskólanum við lokað. Engin vinna við ítarlegt mat á ástandi húsnæðisins hefur auk þess farið fram,“ segir í tilkynningunni en þar er einnig lýst mikilli óánægju með veru barnanna í Safamýri sem er nærri iðnaðarsvæði.
Engin vinna við ítarlegt mat á ástandi húsnæðisins hefur auk þess farið fram
„Bráðabirgðahúsnæðið í Safamýri er hins vegar eins og lestarstöð þar sem börnin deila húsnæðinu með iðnaðarmönnum með tilheyrandi látum, kulda, bleytu og ónæði. Allt kapp verður að leggja á að ljúka þeirri vinnu hratt og vel, enda ljóst að börnin munu þurfa að dvelja þar svo mánuðum skiptir með tilheyrandi skutli á milli hverfa,“ segir í tilkynningunni.
Fríða Sigurðardóttir er foreldra og situr í foreldraráði en þau hafa óskað eftir því að fá nákvæma verk- og tímaáætlun ekki seinna en á mánudag fyrir Stóru-Hlíð.
„Við erum enn að keyra á milli hverfa. Sem við erum auðvitað ekki sátt við og viljum auðvitað komast aftur „heim“. Þetta þýðir að það þurfa allir að setja upp í bíl til að sækja krakkana og þeir sem eru með fleiri en einn bíl geta ekki sameinast í einn bíl því það vantar auðvitað bílstóla og svo þurfa sumir að fara á fleiri en einn stað að sækja,“ segir Fríða og að staðan sé einnig bagaleg fyrir starfsfólk sem þarf margt að ferðast langt og þetta hefur haft þær afleiðingar að foreldrar hafa á þessu tímabili þurft oft að sækja börn fyrr eða hafa þau heima.
„Það sem svíður mest við þetta er að húsnæðið hefur staðið autt í ellefu vikur og það er ekki búið að tæma það. Það eru húsgögn og allskonar dót þarna inni. Það er búið að segja að sjónskoðun sé ekki nóg. Það þarf að rífa upp klæðningu og dúka til að fá heildarmynd af myglunni. Það er blóðugt að keyra fram hjá leikskólanum og það er allt slökkt þegar maður er á leið í annað hverfi með börnin sín. Allur tíminn sem fer í að skutla. Það nær enginn fullum vinnudegi og þetta er mikil skerðing fyrir okkur á bæði lífsgæðum og tekjum,“ segir hún.
Spurð hvort þau hafi fengið einhvern afslátt af gjöldum segir hún þau aðeins hafa fengið afslátt þegar börnin komast ekki í leikskólann.
Það er blóðugt að keyra fram hjá leikskólanum og það er allt slökkt þegar maður er á leið í annað hverfi með börnin sín.
Hafa lagt fram margar tillögur
Fríða segir að frá því að þeim hafi verið tilkynnt um lokun leikskólans hafi þau komið margvíslegum tillögum til Reykjavíkurborgar og lýst yfir ríkum vilja til samstarfs og samvinnu við að finna lausnir bæði til lengri og skemmri tíma. Sem dæmi hafi þau nefnt Klambratún þar sem er stór lóð og húsnæði afgirt í eigu borgarinnar en svo hafi þau líka nefnt möguleikann að segja Ævintýraborg upp við annan leikskóla í hverfinu, Björtuhlíð.
Hún segir að öllum líkindum aðra skóla eða leikskóla munu lenda í sömu stöðu og þótt svo að borgin myndi setja af stað vinnu við að koma þeim inn á Klambratúni eða Ævintýraborg og þau svo komast aftur á Hlíð þá væri það þá aldrei vinna sem borgin myndi „tapa“ því hægt væri að nota það fyrir aðra.