Lögreglan á Norðurlandi eystra sviðsetti í dag manndrápið á Ólafsfirði þann 3. október. Í tilkynningu kemur fram að lögreglan hafi við það notið liðsinnis bæði sakbornings og tæknideildar lögreglunnar.
„Sviðsetning er rannsóknarúrræði sem er almennt ætlað að varpa betur ljósi á þau atvik sem til rannsóknar eru og er viðbót sem getur gefið sakborningi betra færi á að lýsa atburðum. Sviðsetning er svo borin saman við önnur rannsóknargögn svo sem vettvangsrannsókn, lífsýni og framburði annarra,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
Greint var frá því í dag að sá grunaði í málinu hefði verið látinn í laus í gær þegar gæsluvarðhaldsúrskurður rann út. Karlmaðurinn mun áfram ásamt þremur öðrum bera réttarstöðu sakbornings í málinu á meðan rannsókn stendur yfir. Að rannsókn lokinni verður málið svo sent til ákærumeðferðar hjá Héraðssaksóknara.
Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að úrvinnsla gagna standi enn yfir og að þau bíði þess enn að fá endanlega niðurstöðu úr réttarkrufningu auk niðurstaðna úr samanburðarrannsóknum á lífsýnum.