Lög­reglan á Norður­landi eystra svið­setti í dag mann­drápið á Ólafs­firði þann 3. októ­ber. Í til­kynningu kemur fram að lög­reglan hafi við það notið lið­sinnis bæði sak­bornings og tækni­deildar lög­reglunnar.

„Svið­setning er rann­sóknar­úr­ræði sem er al­mennt ætlað að varpa betur ljósi á þau at­vik sem til rann­sóknar eru og er við­bót sem getur gefið sak­borningi betra færi á að lýsa at­burðum. Svið­setning er svo borin saman við önnur rann­sóknar­gögn svo sem vett­vangs­rann­sókn, líf­sýni og fram­burði annarra,“ segir í til­kynningu lög­reglunnar.

Greint var frá því í dag að sá grunaði í málinu hefði verið látinn í laus í gær þegar gæslu­varð­halds­úr­skurður rann út. Karl­maðurinn mun á­fram á­samt þremur öðrum bera réttar­stöðu sak­bornings í málinu á meðan rann­sókn stendur yfir. Að rann­sókn lokinni verður málið svo sent til á­kæru­með­ferðar hjá Héraðs­sak­sóknara.

Í til­kynningu lög­reglunnar kemur fram að úr­vinnsla gagna standi enn yfir og að þau bíði þess enn að fá endan­lega niður­stöðu úr réttar­krufningu auk niður­staðna úr saman­burðar­rann­sóknum á líf­sýnum.