Svíar kaupa um þessar mundir ódýra raforku frá Norður-Noregi og selja hana síðan áfram til Suður-Noregs á miklu hærra verði. Þetta kemur fram í frétt norska ríkisútvarpsins.

Vitnað er til greiningaraðila sem bendir á að álíka mikil raforka sé flutt til Suður-Noregs frá Þrændalögum í miðju landinu eins og frá Suður-Noregi til Englands eða Þýskalands. Einnig sé flutt út mikil raforka frá miðhluta Noregs og Norður-Noregi til Svíþjóðar og Finnlands. Þetta sé sérlega gróðavænlegt fyrir Svía sem geti keypt ódýra orku fyrir norðan og selt hana dýrt aftur inn til Noregs í suðri.

Raforkuframleiðslan í Norður-Noregi er langt umfram það sem notað er þar á svæðinu. Hins vegar er ekki til staðar næg flutningsgeta í Noregi til að senda orkuna sunnar í landið. Þetta gagnast Svíum sem hafa mun betra flutningskerfi.

Raforkuverð í Norður-Noregi er 1 norsk króna á kílóvatt, 5 krónur í Suður-Svíþjóð og 10 krónur í Suður-Noregi.