Sænska ríkisstjórnin hefur nú formlega ákveðið að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Það kemur fram á sænska vefnum SVT. Þar er haft eftir forsætisráðherra Svía, Magdalenu Andersson, að þau muni tilkynna NATO um ætlun sína um að sækja um.

Þar kemur einnig fram að NATO fulltrúi Svía í Brussel muni leggja umsókn þeirra inn á næstu dögum og að umsóknir Svía og Finna verði lagðar inn saman.

Þá segir einnig að ríkisstjórnin hafi ákveðið að leggja fram nýtt frumvarp sem gerir Svíþjóð kleift að þiggja hernaðaraðstoð frá öllum löndum Evrópusambandsins og NATO.

„Svíþjóð verður í viðkvæmri stöðu á meðan umsóknin verður til úrvinnslu,“ sagði Andersson á blaðamannafundi þegar tilkynnt var um aðildarumsóknina fyrr í dag en að þau sjái enga beina hernaðarlega hættu frá Rússlandi eins og stendur.

Ulf Kristersson leiðtogi sænska hægriflokksins Moderaterna var með forsætisráðherra Svíþjóðar á fundinum.
Fréttablaðið/EPA

Leiðtogi sænska hægriflokksins Moderaterna Ulf Kristersson var einnig á blaðamannafundinum og sagði að þrátt fyrir að það væri margt ólíkt með flokkunum þá muni þau saman takast á við þá ábyrgð sem fylgir því að koma Svíþjóð inn í NATO.

„Þetta er söguleg ákvörðun,“ sagði hann og að málið snúist ekki um flokkapólitík heldur að tryggja öryggi landsins.

Micael Bydén, yfirmaður sænska hersins, var einnig gestur blaðamannafundarins og sagði það hárréta ákvörðun ríkisstjórnarinnar að sækja um aðild á þessari stundu.

„Þetta er mikilvæg ákvörðun. Stór og söguleg ákvörðun sem ríkisstjórnin er að taka í dag,“ sagði hann og að frá hernaðarlegu sjónarmiði gerði þetta Svíþjóð að sterkari þjóð.

Hann sagði að samhliða umsókninni aukist hætta frá Rússlandi og nefndi til dæmis aukna hættu á netárásum.

Fyrr í dag fundaði ríkisstjórnin á aukafundi ríkisstjórnarinnar um aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu.

Forsætisráðherrar Íslands, Danmerkur og Noregs segja í sameiginlegi yfirlýsingu að þau styðji öll aðildarumsókn Svíþjóðar og Finnlands að Atlantshafsbandalaginu. Þar kemur einnig fram að ef árás verði gerð á ríkin áður en til fullrar aðildar sé komið muni þau aðstoða þau með öllum tiltækum ráðum.