Í Stokkhólmi fara nú fram réttarhöld yfir Hamid Noury, sextugum manni sem sakaður er um stríðsglæpi í Íran árið 1988.

Amnesty og fleiri mannréttindasamtök hafa sagt þetta tímamótaréttarhöld. Samkvæmt sænskum lögum er hægt að sakfella fólk fyrir alvarlega glæpi, eins og morð eða stríðsglæpi, sem framdir eru í öðrum löndum.

Noury var fangavörður í fangelsinu Gohardasht, nærri höfuðborginni Teheran, sumarið 1988 er æðstiklerkurinn Ayatollah Khomeni fyrirskipaði morð á fimm þúsund meðlimum samtakanna MEK sem börðust bæði með vopnum og áróðri gegn klerkastjórninni.

Noury er sakaður um að taka óbeinan þátt í réttarmorðum og aftökum, meðal annars með því að færa fanga á aftökustaði og safna upplýsingum um fanga fyrir klerkastjórnina. Hann neitar alfarið sök.

„Ég sá hann á dauðadeildinni. Í hvert skipti sem nöfn voru lesin upp fylgdi hann þeim að dauðaklefanum. Það liðu kannski 45 mínútur þangað til næsta nafn var lesið upp. Svo næsta og næsta,“ sagði Reza Falahi við fréttastofuna AFP. Falahi var í Gohardasht og varð vitni að voðverkunum árið 1988.

Málið hefur vakið nokkra athygli í Íran. Þar eru ennþá við völd menn sem taldir eru hafa komið að voðaverkunum. Þar á meðal Ebrahim Raisi forseti sem hefur þvertekið fyrir að hafa tekið beinan þátt.

Fyrr á árinu var kallað eftir rannsókn á aftökunum í Íran.