Sendinefndir frá Finnlandi og Svíþjóð funda með tyrkneskum yfirvöldum í Ankara í dag í von um að Tyrkir láti af andstöðu sinni við aðild þeirra að NATO.

Löndin tvö vonuðust til þess að eiga greiða leið að aðild að NATO en öll aðildarríki bandalagsins þurfa að samþykkja aðildarumsókn.

Finnar og Svíar vilja með aðild að NATO tryggja öryggi sitt eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Tyrkir krefjast þess meðal annars að Svíar aflétti refsiaðgerðum gegn Tyrklandi, þar á meðal banni á vopnaútflutningi. Einnig að Svíar hætti „pólitískum stuðningi við hryðjuverk“, stöðvi fjármögnun hryðjuverkahópa og stöðvi vopnaflutninga til Verkamannaflokks Kúrda og sýrlenskra uppreisnarhópa.