Sænsk stjórnvöld nota Eurovision í þeirri von um að fólk gleymi vopnasölunni sem sænsk fyrirtæki standa fyrir í Evrópu og Miðausturlöndum að sögn Baldurs Þórhallssonar stjórnmálafræðings sem flutti erindi á málþingi um Eurovision og stjórnmál.

Félag stjórnmálafræðinga stóð fyrir málþinginu í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála. Fram komu Baldur Þórhallsson (í beinni frá Tel Aviv), prófessor í stjórnmálafræði, Hildur Tryggvadóttir Flovenz, ráðgjafi hjá KPMG og Baldvin Þór Bergsson, dagskrárstjóri Rásar 2.

Hápólitísk keppni

Baldur segir Eurovision vera hápólitíska keppni og séu fjölmörg dæmi um að þjóðir noti keppnina til að koma pólitískum boðskap á framfæri.

„Boðskapur Eurovision um samvinnu og umburðarlyndi fer vel með sjálfsmynd Svía og boðskap utanríkisstefnu þeirra,“ segir Baldur og bendir á að þúsundir Svía vinni óbeint að Eurovision á ári hverju. Tónlistariðnaðurinn í Svíþjóð væri ekki sá sami ef ekki væri fyrir Eurovision að sögn Baldurs.

„Sænsk stjórnvöld vona að fólk gleymi vopnasölunni sem sænsk fyrirtæki standa fyrir og leggja blessun sína á.“

Nellikubyltingin hófst með Waterloo

Hildur Tryggvadóttir Flovenz, ráðgjafi hjá KPMG, segir Eurovision fara hönd í hönd við stjórnmálsástand hvers tíma og fjalli lögin oft óbeint um ákveðið ástand. Þar má nefna lagið Mercy, framlag frakka árið 2018, sem fjallaði um flóttamenn, Push the button, framlag Ísraels árið 2007 sem fjallaði um kjarnorkuáætlun Írans og lagið 1944, framlag Úkraínu sem fjallaði um nauðungarflutning og var samið í kjölfar innlimun Rússa á Krímskaga. Hildur talaði um að Eurovision hafi einnig verið notað í öðrum pólitískum tilgangi.

„Abba vann árið 1974 með laginu Waterloo. Stuttu eftir keppnina var Nellikubyltingin í Portúgal. Þeir sem stóðu bak við byltinguna sögðu liðsmönnum sínum hlusta á eftir laginu. Þegar Eurovision lagið myndi spilast í útvarpinu, þá myndi byltingin hefjast. Það var merki þeirra,“ segir Hildur og bætir við að hún sé enn að bíða eftir framlagi Vatíkansins.

Norðurlönd kvarta yfir Austur-Evrópulöndum

Baldvin Þór Bergsson, stjórnmálafræðingur, dagskrárstjóri rás 2 og áhugamaður um Eurovision, talaði um að Conchita Wurst hafi vakið mikla athygli á sínum tíma og hafi atriði hennar verið talið mjög pólitískt.

„Það snerist meira um Conchitu held en lagið, fólk rökræddi um hvort hún væri karlmaður í kjól eða skeggjuð kona. Umræða um réttindabaráttu hinsegin fólks var mjög áberandi á þeim tíma og var það atriði talið pólitískt,“ segir Baldvin.

Hann segir stjórnendur Eurovision vera stöðugt að reyna að finna upp á hinu fullkomnu kosningakerfi.

„Dómnefndir gerðu keppnina svolítið leiðinlega. Þegar skipt var yfir í beint lýðræði og fólk heima í stofunni fékk að kjósa, þá varð umræða um klíkuskap í kosningum mjög hávær,“ segir Baldvin.

„Norðurlöndin kvörtuðu yfir því að Austur-Evrópulöndin væru að kjósa hvert annað og það væri ósanngjarnt gagnvart þeim.“